Innlent

„Fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. vísir/stefán

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að stíga ekki nógu fast til jarðar í aðgerðum gegn hlýnun jarðar, er hann tók til máls í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Hann vill að stefnan sem tekin verði af hálfu ríkisvaldsins verði tekin til vinstri, en ekki hægri.

Í ræðu sinni sagði Logi að það væri ódýrt að heyra forsætisráðherra tala um græna byltingu á sama degi og lögð hafi verið fram fjárlög sem gefi engin fyrirheit um slíkt, að sögn Loga.

Horfa má á beina útsendingu frá eldhúsdagsumræðunum hér.

„Það er ekki græn bylting þegar Ísland setur veikari loftslagsmarkmið en Danmörk og Noregur. Það er ekki græn bylting þegar við losum meira og meira á vakt þessarar ríkisstjórnar á hverju ári. Og það er ekki græn bylting þegar ríkið ver minna en einu prósenti af vergri landsframleiðslu til loftslagsaðgerða,“ sagði Logi.

Fjárfesta ætti myndarlega í hugviti, nýsköpun, þróun, umhverfisvænni atvinnustarfsemi og grænni matvælaframleiðslu; hraða ætti orkuskiptum og stórefla almenningssamgöngur.

Fyrr í ræðunni sagði Logi að þær efnahagsþrengingar sem fylgt hafa kórónuveirufaraldrinum og viðbrögðin sem ríki heimsins hafi gripið til vegna þeirra hafi sýnt að mikilvægi ríkisvaldsins og sterkrar almannaþjónustu hafi aldrei verið augljósara. Fullyrðingar hægrimanna um að reglulítill markaður myndi leysa sjálfur úr vandamálum væru úr lausu lofti gripnar.

„Við stöndum andspænis gríðarlega flóknum verkefnum sem verða ekki öll leyst á stuttum tíma. En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skútunni frá hægri og hrista af okkur gamaldags kreddur um það hvernig ríkisfjármál virka og hvernig verðmæti verða til.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×