Ekki tókst að bjarga ófæddum syni hjónanna Chrissy Teigen, fyrirsætu og athafnakonu, og Johns Legend tónlistarmanns. Þetta tilkynnti Teigen á Instagram-reikningi sínum í morgun. Hún var lögð inn á sjúkrahús í vikunni vegna blæðinga, um hálfnuð með meðgönguna.
„Við erum í áfalli og finnum fyrir djúpum sársauka sem maður hafði áður aðeins heyrt talað um, sársauka sem við höfum aldrei fundið fyrir áður. Það tókst aldrei að stöðva blæðinguna og gefa barninu okkar vökvann sem hann þurfti, þrátt fyrir poka eftir poka af blóðgjöf. Það var bara ekki nóg,“ skrifar Teigen í færslu sinni á Instagram.
Með færslunni birtir Teigen myndir af sér og Legend á sjúkrahúsi. Færsluna má sjá hér fyrir neðan.
Teigen segir jafnframt frá því í færslunni að ófæddur sonur þeirra hjóna hafi hlotið nafnið Jack. Þá þakkar hún öllum sem sent hafa fjölskyldunni batakveðjur og bænir á meðan innlögn hennar á sjúkrahúsið stóð.
„Til Jacks okkar. Mér þykir svo fyrir því að fyrstu augnablik lífs þíns hafi litast af svo miklum erfiðleikum, að við höfum ekki getað veitt þér skjólið sem þú þurftir til að lifa. Við munum alltaf elska þig,“ skrifar Teigen.
Hjónin eiga fyrir tvö börn, þau Lunu og Miles, sem bæði voru getin með tæknifrjóvgun. Teigen, sem hafði skjalfest meðgönguna ítarlega á samfélagsmiðlum síðustu vikur, hefur greint frá því að sá hátturinn hafi ekki verið hafður á í tilfelli þriðja barnsins.