Innlent

Fjórir íbúar og tveir starfsmenn smitaðir á Eir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hjúkrunarheimilið Eir. 
Hjúkrunarheimilið Eir.  Vísir/Vilhelm

Fjórir íbúar og tveir starfsmenn hjúkrunarheimilisins Eirar í Grafarvogi hafa nú greinst með kórónuveiruna. Þegar hafði verið tilkynnt að þrír íbúar væru smitaðir en sá fjórði greindist með veiruna í gær. Gripið hefur verið til umfangsmikilla aðgerða á hjúkrunarheimilinu vegna smitanna.

Starfsmaður á Eir greindist með veiruna í síðustu viku og voru íbúar og starfsmenn á 2. hæð suður í A-húsi þá sendir í skimun. Þórdís Hulda Tómasdóttir, verkefnastjóri hjúkrunar – og gæðamála hjá Eir, greindi fyrst frá stöðu mála í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun en hún segir í samtali við Vísi að öll deildin sé nú í sóttkví.

Allir íbúar sem greinst hafa með veiruna dvelja jafnframt í einangrun á sérstakri Covid-deild sem sett var upp vegna smitanna. Enginn þeirra hefur fundið fyrir miklum einkennum enn sem komið er, að sögn Þórdísar. Hún segir að allir hlutaðeigandi hafi tekist á við stöðuna af mikilli yfirvegun.

„Ég held að íbúar, aðstandendur og allir starfsmenn hafi áttað sig á því í nokkrar vikur að þetta væri tímaspursmál, veiran er alls staðar í samfélaginu, einkennalaus og lævís hjá mörgum. Fólk var búið að undirbúa sig andlega án þess að það væri talað um það,“ segir Þórdís.

„Allir eru tiltölulega einkennalitlir. Enginn er með einkenni í sóttkví og það fyllir fólk ákveðnu öryggi en auðvitað er fólk hrætt. Þetta er erfitt, að vera í einangrun og að geta ekki fengið fólk í heimsókn.“

Hjúkrunarheimilinu var lokað fyrir heimsóknum fyrir helgi vegna stöðunnar sem þá var komin upp. Þórdís segir að stefnan sé að reyna að opna aftur eins fljótt og hægt er, vonandi næsta mánudag. Íbúar losna úr sóttkví eftir skimun þann dag, að því gefnu að þeir reynist allir neikvæðir fyrir veirunni.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.