Innlent

Fljúgandi hálka á götum borgarinnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ökumenn ættu að fara varlega á höfuðborgarsvæðinu þennan morguninn og gefa sér tíma til þess að skafa af bílnum.
Ökumenn ættu að fara varlega á höfuðborgarsvæðinu þennan morguninn og gefa sér tíma til þess að skafa af bílnum. Vísir/Vilhelm

Fljúgandi hálka er á götum höfuðborgarsvæðisins, og víðar á vesturhelmingi landsins, nú í morgunsárið og því nauðsynlegt fyrir ökumenn og aðra vegfarendur að fara mjög varlega. Þá ætti fólk einnig að gefa sér tíma til þess að skafa rúður. Söltunarbílar frá borginni hafa verið á ferð og saltað göturnar.

Daníel Þorláksson, vakthafandi veðurfræðingur, segir að eftir rigningu í gærkvöldi hafi myndast kjöraðstæður til að mynda hálku.

„Í gærkvöldi var rigning en svo stytti upp eftir kvöldmat en á sama tíma er að dimma. Mesta frost sem mældist á höfuðborgarsvæðinu í nótt var í Víðidal, tæp þrjú stig, en annars staðar mældist ekki frost, heldur hiti eitt til tvö stig. En við mælum í tveggja metra hæð þannig að það lýsir ekki alveg yfirborðinu. Þannig að þegar þú ert með blauta jörð og nær að geisla út þegar það er þokkalega léttskýjað þá frystir við yfirborð,“ segir Daníel.

Hann segir að skömmu eftir að sólin komi upp núna fyrir hádegi ætti hálkan að bráðna þar sem yfirborðið hitni fljótt.

Veðurhorfur á landinu:

Suðlæg átt, víða 5-10 m/s en suðaustan 10-18 m/s norðaustanlands. Rigning austantil, talsverð eða mikil úrkoma á Austfjörðum. Stöku skúrir um vestanvert landið í dag, og fer að rigna á Norðvesturlandi í kvöld. Hiti 1 til 10 stig, hlýjast austantil.

Suðlæg átt 3-8 m/s og bjart með köflum á morgun, en suðaustan 8-13 m/s suðvestanlands og stöku skúrir. Hiti 3 til 8 stig að deginum.

Á fimmtudag:

Suðlæg eða breytileg átt, víða 3-8 m/s. Bjart með köflum, en dálitlar skúrir suðvestantil og líkur á rigningu við norðausturströndina um kvöldið. Hiti 3 til 8 stig að deginum.

Á föstudag:

Austlæg átt 3-8 m/s, skýjað og úrkomulítið, en norðaustan 5-13 og víða rigning um austanvert landið. Hiti 1 til 8 stig.

Á laugardag:

Suðlæg átt 3-8 og dálitlar skúrir, en léttir víða til norðanlands. Hiti 3 til 10 stig yfir daginn, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag og mánudag:

Norðlæg átt og rigning af og til, en úrkomulítið suðvestanlands. Hiti 3 til 8 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×