Innlent

Aðgerðir líklega kynntar á morgun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Fundað var í ráðherrabústaðnum í dag.
Fundað var í ráðherrabústaðnum í dag. Vísir/Vilhelm

Atkvæðagreiðslu Samtaka atvinnulífsins um uppsögn Lífskjarasamningsins var frestað til hádegis á morgun. Fundað hefur verið stíft í dag um alvarlega stöðu á vinnumarkaði og líklegt þykir að aðgerðir stjórnvalda verði kynntar á morgun.

Til stóð að aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins myndu greiða atkvæði um uppsögn Lífskjarasamningsins í dag. Stjórnvöld hafa róið að því öllum árum að koma í veg fyrir upplausn á vinnumarkaði og á fundi samtakanna og formanna stjórnarflokkanna í morgun var ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni til hádegis á morgun. Verði af henni á niðurstaða að liggja fyrir á hádegi á miðvikudag.

„Við erum sammála um það, Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld, að við þeirri stöðu sem upp er komin í efnahagsmálum þurfi að bregðast. Og aðilar eru að móta með sér einhvers konar sameiginlegt viðbragð sem talar inn í þessa stöðu,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir fund í ráðherrabústaðnum í morgun.

Hann vill ekki gefa upp hvað felst í þessu viðbragði. Forseti ASÍ segir frestun á launahækkunum ekki koma til greina.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.Foto: Baldur Hrafnkell/Baldur Hrafnkell Jónsson

„Og reyndar finnst mér fullkomnlega óábyrgt af atvinnurekendum að hleypa hér öllu í loft upp með þessari för sem þeir eru í núna,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. „Ég held að Samtök atvinnulífsins séu í ákveðinni veiðiferð gagnvart stjórnvöldum og vilja fá einhver loforð um ívilnanir fyrir atvinnulífið.“

Ekki sé eðlilegt að kjarasamningar launafólks séu notaðir sem útspil í þeirri vegferð.

Fundað hefur verið stíft um stöðuna í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu miðar samtalinu ágætlega og líklegt þykir að aðgerðir fyrir atvinnulífið verði kynntar á morgun. Fjölmargt hefur verið þar til umræðu en viðsemjendur hafa þó haldið spilunum þett að sér í dag.

„Við erum bara í samtali og ætli línurnar skýrist ekki í dag eða á morgun,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að loknum fundi í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.