Innlent

Handtekinn með stórt sverð innanklæða

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Um klukkan hálftvö í nótt barst lögreglunni tilkynning um mann í miðbænum sem var á ferð með þrjár ferðatöskur og bakpoka.

Þegar lögreglan hafði afskipti af manninum vildi hann ekkert kannast við ferðatöskurnar sem þar voru nærri að því er segir í dagbók lögreglu.

Maðurinn var handtekinn og þá fannst við öryggisleit stórt sverð sem maðurinn hafði innan klæða. Er maðurinn grunaður um brot á vopnalögum og hylmingu. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Í dagbók lögreglu er einnig greint frá hörðum árekstri tveggja bíla sem varð á Suðurlandsvegi við Heiðmerkurveg í gærkvöldi skömmu eftir klukkan hálfsex.

Bíl var ekið frá Heiðmerkurvegi með beygju inn á Suðurlandsveg í veg fyrir annan bíl. Báðir bílarnir voru óökufærir og voru fjarlægðir af vettvangi með Króki. Einn farþegi kenndi sér eymsla í baki og fæti en var ekki fluttur á slysadeild.

Nokkru áður en tilkynning barst um áreksturinn, eða laust fyrir hálfsex í gærkvöldi, var tilkynnt um eignaspjöll hjá bílaleigu í hverfi 104.

Í öryggismyndavélum sást þegar maður og kona reyndu að brjóta upp lyklabox sem er fyrir skil á bílaleigubílum. Svo virðist sem fólkið hafi ekki náð að komast í lyklana en skemmdir urðu á boxinu.

Þá voru nokkrir ökumenn teknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og einn ökumaður var stöðvaður grunaður um notkun farsíma við akstur. Hann neitaði sök og var vettvangsskýrsla rituð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.