Innlent

Lítur á hvern nýjan dag sem gjöf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Séra Karl Sigurbjörnsson segir trúna styrk í hörmungum á borð vði kórónuveiruna.
Séra Karl Sigurbjörnsson segir trúna styrk í hörmungum á borð vði kórónuveiruna.

„Mér líður ágæt­lega í dag, ég get ekki kvartað. Maður á að líta á hvern dag sem gjöf og þakka fyr­ir það. Við vit­um það með lífið, það end­ar bara á einn veg.“

Þetta segir Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands, sem berst við krabbamein. Karl fer um víðan völl í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Karl, sem er 73 ára, greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2017. Meinið dreifðist í beinin.

„Það var heilmikið áfall. Ég er búinn að horfa upp á fjóra bræður mína fara úr krabbameini. Fjórir af sex bræðrum,“ segir Karl í viðtalinu.

„Svo hefur dóttir mín verið að glíma við það sama þetta umliðna ár. Það er erfiðast af öllu.“

Hann segist hafa verið í lyfjameðferð í hálft ár og sé nú á þriggja mánaða fresti í lyfjagjöf. Hann hafi ekki verið skorinn því meinið sé ekki skurðtækt. Hann leggur áherslu á að hann sé í höndum frábærra lækna og lýsir því þannig að hann sé á skilorði. Hann líti á hvern dag sem gjöf og hræðist ekki dauðann.

Karl Sigurbjörnsson var sóknarprestur í Hallgrímskirkju um árabil og síðar biskup Íslands frá 1998 til 2012.

Karl er virkur á Facebook þar sem hann deilir hugleiðingum sínum og les valin orð úr biblíunni.

„Mér finnst þetta góður vett­vang­ur til að koma á fram­færi orðinu, trúnni. Ég hef fundið að það er þörf fyr­ir það og það er kallað eft­ir þessu. Það voru svo börn­in mín sem ýttu mér út í það að taka upp mynd­bönd þar sem ég er með hug­leiðing­ar. Þessi hug­mynd kviknaði í kóf­inu í vor og ég fékk ótrú­leg viðbrögð. Það er tölu­vert áhorf og ég er þakk­lát­ur fyr­ir það. Mér finnst þegar ég er að fikta við þenn­an vett­vang að ég eigi að skilja eft­ir eitt­hvað já­kvætt þar. Nóg er af nei­kvæðni og háði,“ segir Karl í Morgunblaðinu.

Að neðan má sjá nýlegt innlegg Karls á samfélagsmiðlinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.