Innlent

Óttast að landbúnaðurinn muni fjara út í faraldrinum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun fara yfir stöðuna í stjórnmálum í dag á flokksráðsþingi Miðflokksins. 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun fara yfir stöðuna í stjórnmálum í dag á flokksráðsþingi Miðflokksins.  Vísir/Vilhelm

Viðbrögð við ástandinu sem nú ríkir í heimsfaraldri og mál sem stjórnvöld virðast hafa gleymt verður meginstefið á flokksráðsfundi Miðflokksins í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýnir stefnuleysi í landbúnaðarmálum og segir hættu á að atvinnugreinin fjari út ef ekkert verði að gert.

„Við munum samþykkja ályktun um stöðuna í stjórnmálum og eflaust snýr hún annars vegar að stöðunni sem er uppi núna en það má heldur ekki gleyma öllum þeim atriðum sem voru brýn áður en þessi faraldur hófst,“ segir Sigmundur Davíð, en flokksráðsfundurinn fer fram í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom og er opinn öllum.

Hann segir að tímabundið ástand megi ekki verða til þess að mikilvæg mál séu sett í biðstöðu.

„Til dæmis staða minni og meðalstórra fyrirtækja í landinu sem var þegar orðin mjög þröng áður en þetta ástand hófst og jafnvel heilu atvinnugreinarnar eru í verulegum vandræðum,“ segir hann og nefnir landbúnaðinn sérstaklega.

„Það þekkja allir áhrif Covid á ferðaþjónustuna en landbúnaður á Íslandi, þessi undirstöðu atvinnugrein, er bara í nauðvörn og nauðsynlegt að bregðast við. Faraldurinn má ekki verða til þess að við gleymum þeirri atvinnugrein og hún bara fjari út á meðan þetta tímabundna ástand varir.“

Á fundinum verður einnig lagt til að haldið verði auka landsþing. „Það er afleiðing af þessu öllu. Við hefðum viljað vera búin að halda landsþing og hittast öll í stórum sal en við sjáum ekki fram á að geta það á næstunni, en viljum heldur ekki láta landsþing bíða ef lengi. Þannig að þess vegna viljum við taka eitt landsþing í gegnum fjarfundabúnað og fylgja því svo eftir þegar tækifæri gefst til með hefðbundnu landsþingi,“ segir Sigmundur Davíð.

Horfa má á fundinn í þessari frétt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.