Innlent

Biðlar til fólks sem er einkennalaust í sóttkví að hætta að „hamast við að komast í sýnatöku“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn segir að fólk með einkenni sé í forgangi varðandi sýnatöku.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn segir að fólk með einkenni sé í forgangi varðandi sýnatöku. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnaryfirvöld hafa aukið umfang skimana fyrir kórónuveirunni og lækkað þröskuldinn fyrir skimun. Í gær var met slegið í fjölda sýna á einum degi.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að fólk með einkenni séu í algjörum forgangi, mikilvægt sé að finna sýkta einstaklinga sem allra fyrst og koma þeim í einangrun. Það sé lykilatriði til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.

Að sögn Víðis hefur undanfarið borið nokkuð á því að einkennalaust fólk í sóttkví hafi þrýst á að fá að komast í sýnatöku sem fyrst þrátt fyrir að vera ekki á lokadegi sóttkvíar.

„Við höfum aðeins orðið vör við það að fólk sem smitrakningarteymið okkar hefur sett í sóttkví er að hamast við að komast í sýnatöku. Ef þú ert kominn í sóttkví þá breytir sýnataka á þriðja, fimmta eða sjötta degi engu um sóttkvína sjálfa. Það er bara neikvæð niðurstaða úr sýnatöku á sjöunda degi sem losar þig úr sóttkvínni. Þú færð meldingu frá okkur um hvenær og hvar þú getur mætt í hana. Það skiptir miklu máli að fólk sem er í sóttkví sé ekki að taka pláss frá fólki sem er með einkenni. Við biðjum alla um að taka þátt í því með okkur en ef þú ert í sóttkví og færð einkenni þá geturðu fengið sýnatöku.“

Sjálfur fer Víðir í sýnatöku nú síðdegis því hann er á sjöunda degi sóttkvíar. Víðir kveðst vera við góða heilsu og vera einkennalaus með öllu. 

„Nei, mér bara leiðist pínulítið en það er víst ekki covid-einkenni,“ segir Víðir léttur í bragði.


Tengdar fréttir

Gæti tekið nokkurn tíma að ná utan um þessa bylgju

Þrjátíu og átta voru greindir með kórónuveiruna í gær og um helmingur þeirra var ekki í sóttkví. Sóttvarnalæknir telur að það muni taka nokkurn tíma að ná utan um þessa bylgju faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×