Líðan karlmanns sem slasaðist í alvarlegu slysi við tengivirki í Breiðadal fyrir botni Öndunarfjarðar í gær er sögð stöðug. Maðurinn fékk í sig mikinn straum og féll úr töluverðri hæð. Fulltrúar Mannvirkjastofnunar og vinnueftirlitsins rannsaka tildrög slyssins.
Karlmaðurinn, sem er á sextugsaldri, var fluttur slasaður með sjúkrabíl til Ísafjarðar og í framhaldinu með sjúkraflugi Mýflugs suður til Reykjavíkur. Hann liggur inni á Landspítalanum og er líðan hans stöðug að sögn Elíasar Jónatanssonar, orkubússtjóra á Vestfjörðum.
Hann segist ekki hafa frekari upplýsingar um málið og bendir á að slysið hafi orðið í kerfishluta Landsnets. Straumleysi varð í Önundarfirði eftir að slysið varð.Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, staðfestir að óháð rannsókn Mannvirkjastofnunar og Vinnueftirlits standi yfir á atvikinu.
„Það er verið að taka út atburðina og fara yfir hvað gerðist,“ segir Steinunn. Á meðan geti hún lítið tjáð sig um málið.
„Hræðilegt þegar svona gerist“
Um er að ræða 66 kV flutningskerfi sem geta borið allt að 66 þúsund volt. Steinunn segir að straumur hafi ekki verið á línunni en þó á tengiverkinu eins og eðlilegt sé.
Aðspurð hvort slys sem þessi hafi komið upp áður segir hún fyrirtækið hafa verið heppið en það leggi líka mikið upp úr öryggismálum.
„Bæði Landsnet og Orkubú eru fyrirtæki sem leggja rosalega mikla áherslu á öryggismál. Allt okkar fólk fær mikla þjálfun og er þrautþjálfað að vinna við svona aðstæður. Sem betur fer hafa ekki orðið mörg slys við svona aðstæður.“
Hún segir hug fyrirtækisins hjá samstarfsfólki sínu hjá Orkubúinu.
„Það er alltaf hræðilegt þegar svona gerist.“
Fréttin var uppfærð með viðbrögðum Landsnets.