Innlent

Þriðjungur smitaðra sótti sama vínveitingastaðinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir Vísir/Vilhelm

Af þeim þrjátíu og tveimur sem hafa greinst með kórónuveiruna síðastliðna tvo sólarhringa má rekja þriðjung þeirra smita til vínveitingastaðar í miðborg Reykjavíkur. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu.

Af þeim þrettán sem greindust á þriðjudag var aðeins einn í sóttkví. Af þeim nítján sem greindust í gær voru tólf ekki í sóttkví. 24 af 32 smituðum síðustu daga hafa því verið utan sóttkvíar.

Sjónir beindust að háskólasamfélaginu í gær því nemendur og starfsfólk háskólanna höfðu greinst með veiruna.

Þórólfur segir í dag að ekki séu óyggjandi merki fyrir því, eins og staðan er núna, að þessi hópsýkingin sé innan skólanna heldur virðist hún vera að koma annars staðar frá.

Vínveitingastaðir og skemmtistaðir hafa mátt hafa opið til klukkan 23 á kvöldin undanfarnar vikur.Vísir/Vilhelm

„Það virðist vera að stóran hluta sé hægt að rekja til skemmtistaðar eða vínveitingastaðar í bænum sem við erum að skoða aðeins betur,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Síðastliðna tvo sólarhringa höfum við verið að greina rúmlega þrjátíu einstaklinga og um það bil þriðjunginn má rekja til þessara staðar. Það er síðasta helgi sem að er til skoðunar og það er verið að reyna að hafa upp á sem flestum sem hafa verið á þessum stað á þeim tíma,“ segir Þórólfur. 

Er þá verið að horfa til tímabilsins frá 11. september. 

Hann segir að nú sé að skoða að grípa til staðbundinna hertra aðgerða á höfuðborgarsvæðinu til að ná utan um þessa hópsýkingu. Aðgerðirnar verði eins lítið íþyngjandi og hægt er en þó markvissar.

„Það er bara verið að skoða hvað af því muni skila sem bestum árangri,“ segir Þórólfur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.