Innlent

Nítján greindust með veiruna í gær

Kristín Ólafsdóttir skrifar
visir-img
Þorkell Þorkelsson/Landspítali háskólasjúkrahús

Nítján kórónuveirusmit greindust hér á landi síðasta sólarhringinn. Þetta segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands í samtali við Vísi. Ekki hafa fleiri greinst með veiruna á einum sólarhring síðan 9. apríl, þegar 27 greindust. Tölurnar hafa þó enn ekki verið uppfærðar á Covid.is en það er venjulega gert klukkan ellefu dag hvern.

Thor greindi fyrst frá smitum gærdagsins í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagðist hann hafa nokkrar áhyggjur af stöðunni.

„Ef faraldurinn væri í eðlilegum gangi hefði ég búist við minna. Ég hefði getað verið rólegur með svona átta, níu. En nítján, nei. Þá er eitthvað á seyði,“ sagði Thor.

Annar gangur væri kominn í faraldurinn nú.

„Og þessi smit skila öðrum smitum þannig að þetta hefur hægt á því að hann fari niður. En ég veit það að þetta er samt sami stofninn, hann hefur fengið nafnið græna veiran.“

Þrettán greindust með veiruna í fyrradag en þá höfðu ekki fleiri greinst síðan 6. ágúst. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í gær að það mætti búast við því að tölurnar í dag yrðu hærri en síðustu daga.

„En það kæmi heldur ekki á óvart. Mér finnst svona líklegt að við séum að horfa eitthvað á bilinu sex til fimmtán, það kæmi mér ekki á óvart miðað við fyrri reynslu,“ sagði Víðir.

Upplýsingafundur Embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er á dagskrá í dag klukkan 14 og verður í beinni útsendingu á Vísi klukkan 14.


Tengdar fréttir

Tveir nemendur við HR smitaðir

Tveir nemendur við Háskólann í Reykjavík eru smitaðir af Covid-19. Þetta kemur fram í tölvupósti viðbragðsteymis skólans vegna Covid-19 til nemenda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×