Innlent

Ósvöruð spurning um njósnastað ekki nóg fyrir Hæstarétt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alvar Óskarsson, Einar Jökull Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson mæta í dómsal þegar málið var til meðferðar í héraði.
Alvar Óskarsson, Einar Jökull Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson mæta í dómsal þegar málið var til meðferðar í héraði. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað áfrýjunarbeiðni Alvars Óskarssonar í stóru fíkniefnamáli sem hann hlaut sex ára fangelsisdóm fyrir. Alvar hlaut sex ára fangelsisdóm í Landsrétti sem stytti dóm hans úr héraði um eitt ár.

Alvar ásamt Einari Jökli Einarssyni og Margeiri Pétri Jóhannssyni dæmdur fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.

Þeir gagnrýndu allir rannsókn málsins þar sem gögnum hafði verið haldið frá þeim og þeir þar af leiðandi hefðu ekki getað sýnt fram á að þeir hafi verið viðstaddir annars staðar í einhverjum tilvikum. Þeir viðurkenndu þó allir að hafa verið á vettvangi þann 7. júní 2019 en lögreglan stöðvaði framleiðsluna þann dag.

Alvar óskaði eftir áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli að héraðsdómari hefði borið að leggja fyrir lögreglumenn, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, að svara spurningum um staðsetningu þeirra við eftirlit við sumarhúið þar sem amfetamínframleiðslan fór fram. 

Þá vísaði Alvar til þess að dómurinn í Landsrétti væri rangur að efni til því er varðaði ákvörðun refsingar og sönnunarmat, sem ætti sér hvorki stoð í réttarframkvæmd né meginreglum sakamálaréttarfars.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að ekki verði séð að það hafi verulega almenna þýðingu eða sé mjög mikilvægt af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að skilyrði fyrir áfrýjunarleyfi sé uppfyllt. Var beiðninni því hafnað.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×