Bandaríski spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres segist vera reiðubúin að ræða málin þegar þættir hennar snúa aftur síðar í þessum mánuði. Mikið hefur verið fjallað síðustu mánuði um að starfsumhverfi við framleiðslu þáttanna hafi verið eitrað.
„Ég get ekki beðið eftir að snúa aftur til starfa og aftur í sjónvarpsverið. Og já, við munum ræða það,“ sagði DeGeneres í yfirlýsingu. Átjánda þáttaröð spjallþáttanna hefst þann 21. september næstkomandi.
Greint var frá því í síðasta mánuði að þrír háttsettir framleiðendur þáttarins hafi verið reknir í kjölfar ásakana um ósæmilega hegðun, kynþáttafordóma og kynferðislega áreitni. Ellen greindi sjálf frá breytingunum á fjarfundi starfsmanna auk þess að innri rannsókn á ásökunum um eitrað starfsumhverfi væri hafin. Sagðist hún harma því hvernig mál hafi þróast.
Leikkonan og rithöfundurinn Tiffany Haddish verður gestur í fyrsta þætti Ellen eftir sumarfrí. Þátturinn verður tekinn upp án áhorfenda, líkt og tíðkast nú til dags á tímum faraldurs kórónuveirunnar.
Í þáttunum fyrstu vikuna verða Kerry Washington, Alec Baldwin og Chrissy Teigen í hópi gesta, en síðar í mánuðinum mæta svo meðal annars Chris Rock, Amy Schumer, Adam Sandler og Orlando Bloom.
Í yfirlýsingu segir ennfremur að Stephen „tWitch” Boss, sem hefur verið tíður gestur sem plötusnúður þáttanna, verði einnig í hópi gesta þáttanna í haust.