Lífið

„Ég ætlaði ekki að trúa því að ég hefði klárað þetta“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þóra Rós Guðbjartsdóttir missti vinnuna hjá Icelandair og þegar líkamsræktarstöðin sem hún starfaði fyrir lokaði vegna Covid, ákvað hún að útbúa jógamyndbönd fyrir krakka.
Þóra Rós Guðbjartsdóttir missti vinnuna hjá Icelandair og þegar líkamsræktarstöðin sem hún starfaði fyrir lokaði vegna Covid, ákvað hún að útbúa jógamyndbönd fyrir krakka. Vísir/Vilhelm

Þóra Rós Guðbjartsdóttir jógakennari ákvað að setja sér háleitt markmið eftir að hún eignaðist yngra barnið sitt á síðasta ári. Hún vildi ná aftur andlegum og líkamlegum styrk og tókst það svo sannarlega. Í sumar hljóp hún Laugavegshlaupið, 55 kílómetra og sannaði fyrir sjálfri sér að ekkert er ómögulegt.

„Þegar að ég hugsa til baka trúi ég varla að ég hafi gert þetta. Fyrir mér er þetta eitt mesta afrek lífs míns fyrir utan auðvitað að fæða börnin mín,“ segir Þóra.

Í hópnum sem hún æfði með voru þrír sem höfðu hlaupið áður en svo voru þrír að gera þetta í fyrsta skipti, þar á meðal Þóra.

Illt í öllum líkamanum

„Við vorum þrjú systkini og þrjú frændsystkini sem vorum að hlaupa þetta saman. Við æfðum mikið saman fyrir þetta hlaup. Það má eiginlega segja að Covid hafi sameinað okkur í hlaupunum.“

Annar bróðir Þóru býr í New York í Bandaríkjunum þar sem hann starfar fyrir We Work. Hann kom heim til Íslands vegna heimsfaraldursins og gat því æft með hinum fyrir hlaupið.

„Þegar að kom að hlaupadeginum sjálfum, man ég að ég þurfti að losa mig við mjólkina sem að ég var með í brjóstunum. Ég trúði því varla sjálf að ég var að fara hlaupa þetta hlaup, 55 kílómetra, og ekki liðið eitt ár frá því að ég átti seinni strákinn minn.“

Þóra segir að erfiðasti hluti Laugavegshlaupsins hafi verið eftir Emstrur en hún lenti sjálf á vegg á leiðinni, eins og svo margir hlauparar hafa upplifað í keppni og löngum hlaupum.

„Mér hafði liðið mjög vel allan tímann og það var mikill sigur að komast inn í Emstrur. Þá er maður búinn með um það bil 37 kílómetra og eftir eru um það bil 18 kílómetrar, þangað til maður er kominn inn í Þórsmörk. Þarna fann ég hvað ég var gjörsamlega búin á því, líkamlega og andlega. Mig langaði svo mikið að setjast niður og láta bara einhvern sækja mig. Mér var illt í öllum líkamanum og ég labbaði mjög mikið seinasta kaflann. Þetta var ótrúlega sérstök tilfinning og ég hef aldrei upplifað hana áður. Ég hugsaði oft af hverju í fjandanum ég væri að hlaupa þetta. En ég var ekki með nein meiðsli, ég vissi að þetta bara ótrúlega mikil bugun og þreyta. Ég hugsaði svo með mér að ég væri búin með svo mikið að ég gæti ekki hætt núna. Ég tek bara eitt skref í einu og hætti ekki.“

Stuðningurinn ómetanlegur

Upplifunin var þó algjörlega ógleymanleg. Þó að þetta hafi verið lengsta og erfiðasta hlaup sem Þóra hafði nokkurn tímann tekið þátt í. 

„Skemmtilegast við þetta hlaup var klárlega fegurðin á leiðinni. Hún var svo stórkostleg að mér fannst alltaf eins og ég væri inn í einhverri bíómynd. Veðrið var líka svo gott að maður sá náttúruna og fjöllin svo vel, og það var alltaf eitthvað nýtt að sjá á hverjum áfangastað. Það sem hjálpaði mér mest var að vita að það voru allir í fjölskyldunni minni, vinir og vandamenn að taka á móti mér inn í Þórsmörk. Ég hlustaði líka á hlaðvörp og tónlist og það gaf mér auka styrk.“

Hún lauk hlaupinu á átta klukkustundum og 40 mínútum. Að ljúka hlaupinu var mikill tilfinningarússíbani.

„Þegar að ég var að nálgast markið kom eldri strákurinn minn sem er fjögurra ára og frænka mín sem er fimm ára hlaupandi á móti mér. Ég fór að hágráta en hélt áfram að hlaupa. Þegar að ég var komin aðeins nær markinu sé ég pabba minn koma á móti mér. Mig langaði mest að hlaupa í fangið á honum og gráta en ég var ekki alveg komin í mark. Svo loksins sé ég markið. Ég ætlaði ekki að trúa því að ég hefði klárað þetta. Að komast í mark þarna var svipað og þegar ég fæddi báða strákana mína. Tilfinningarnar og hamingjan ólýsanleg.“

Stolt af sjálfri sér

Allur hópurinn náði að komast í mark innan tímarammans sem hlauparar hafa til þess að klára. Systkinin hafa strax ákveðið að hlaupa saman maraþon á næsta ári.

„Þeim gekk öllum ótrúlega vel. Yngri bróðir minn Rúnar náði besta tímanum af okkur 05:55:00 og allir hinir komu í kjölfarið á mjög góðum tíma.“

Þóra er stolt af því að hafa náð þessu takmarki. „Það getur verið erfitt að koma sér af stað eftir barnsburð. Það sem hjálpaði mér var að setja mér markmið. Skrá mig í mömmutíma til þess að fá styrkinn minn til baka, skrá mig síðan á hlaupanámskeið og síðan var að mæta á æfingar og hætta ekki fyrr en ég var búin,“ segir Þóra um það hvernig þetta ævintýri byrjaði.

„Það er mikill andlegur styrkur sem að maður þarf til að hlaupa langt. Þar sem að ég er jógakennari kann ég vel á líkamann minn og ég var dugleg að hlusta á hann. Ég var alveg vör við það ef að ég fór of hratt af stað og þurfti mjög oft að hægja á mér á æfingum.“

Þóra er með Instagram síðuna 101yogareykjavik og Facebook síðuna 101 yoga þar sem hún sýnir frá hlaupnunum mínum og gefur góð ráð tengd jóga og hreyfingu.Vísir/Vilhelm

Mikilvægt að hlusta á líkamann

Hún segir að þegar komi að hreyfingu, sé mikilvægast að finna sér eitthvað skemmtilegt. Viti fólk ekki hvað það er, sé tilvalið að prófa alls konar möguleika til þess að finna hvað hentar.

„Ég myndi segja að það skipti mestu máli að setja sér eitthvað markmið. Jafnvel bara að hlaupa fimm kílómetra eða ganga í 30 mínútur. Skiptir ekki máli hversu lengi maður er að því, skiptir máli að byrja.“

Auðvitað þurfi konur að fara hægt af stað eftir barnsburð, hlusta á líkamann og hægja á sér ef þarf.

Þóra hefur alltaf haft gaman af því að hreyfa sig en fyrir Laugaveginn var 21 kílómetri lengsta vegalengdin sem hún hafði hlaupið.

„Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum frá því ég var krakki, var mikið í dansi og í frjálsum íþróttum. Ég flutti síðan til Mexíkó 2007 til að læra listdans í fjögur ár. Ég bjó líka í eitt ár í Madríd og þar fór ég í fyrsta jógatímann minn, og eftir það var ekkert aftur snúið. Þegar ég flutti síðan heim ákvað ég að taka jógakennararéttindin og útskrifaðist sem jógakennari árið 2015 úr Yogashala.“

Icelandair uppsögnin skellur

Þegar Þóra var ófrísk af eldri stráknum sínum stofnaði hún 101 YOGA, lítið jógastúdíó í miðbæ Reykjavíkur. „Ég man að ég var að kenna stundum hádegistímana með litla þriggja mánaða mánaða snúð í vagninum. Þetta var svona persónulegt lítið jógastúdíó og fólk fannst bara gaman að ég skildi hafa litla strákinn minn með í jógatímunum. Árið 2017 fluttum við til Akureyrar vegna vinnu hjá manninum mínum og þá gat ég ekki annað en lokað stúdíóinu. Þegar að ég var ólétt af seinni stráknum kláraði ég yoganidra kennararéttindin líka, sem er í raun liggjandi hugleiðsla þar sem þú ert milli svefns og vöku og nærir undirmeðvitundina þína.“

Hún gerðist svo jógakennari í Hreyfingu eftir að þau fluttu aftur suður en var einnig einn þeirra starfsmanna sem missti vinnuna hjá Icelandair fyrr á þessu ári. Eiginmaður hennar hafði líka verið starfsmaður fyrirtækisins og urðu þau því atvinnulaus á sama degi.

„Það var erfitt. Við keyptum okkur íbúð í fyrra þannig að það var smá skellur vitandi að við vorum ekkert að fara að fljúga á næstunni. Það hjálpaði okkur að vita það að við erum ekki ein í þessu ástandi, það eru fleiri í sömu sporum og við. Fundum stuðning frá vinum og fjölskyldu.“

Þóra Rós Guðbjartsdóttir vildi styrkja sig eftir barnsburð og byrjaði á mömmunámskeiði og fór svo á byrjendanámskeið í hlaupum. Innan við ári seinna hljóp hún Laugaveginn Ultra Maraþon.Vísir/Vilhelm

Meiri kyrrð á heimilinu

Þá ákvað hún að skrá sig í nám í Skapandi greinum í Háskólanum á Bifröst og er spennt að sjá hvaða tækifæri fylgja í kjölfarið. Þegar líkamsræktarstöðvar lokuðu um tíma vegna heimsfaraldursins fór Þóra svo af stað með jógaverkefni sem vakið hefur jákvæða athygli. Með þessu verkefni hefur hún náð að tvinna saman reynsluna úr móðurhlutverkinu, jóganu og náminu.

„Þegar að Covid byrjaði og allir voru fastir heima hjá sér, var mikið um heimaæfingar og heimajóga. Ég þurfti hætta með jógatímana mína og fékk fyrirspurn um að gera jóga á netinu. Jóga er persónuleg reynsla, og mér finnst mikilvægt að vera á staðnum, finna nándina, orkuna frá fólki þegar að ég er að kenna. Þannig að ég gerði bara jóga heima fyrir mig og smám saman voru strákarnir mínir að dúllla sér þarna með mér og þeim fannst þetta sniðugt. Ég hafði fengið ábendingu frá vini að það væri nánast sem ekkert íslenskt krakkajóga til á netinu.“

Þóra segir að krakkajógað og þessar fjölskyldustundir heima hjá þeim hafi orðið til af því að hún vildi ná betur til strákanna og búa til kyrrð á heimilinu, þegar allir voru heima á tímabili. Þóra ákvað svo að prófa að taka upp nokkra þætti svo aðrir gætu tekið þátt. 

Hugurinn skiptir öllu

Hjónin gerðu þættina saman, með og án litlu drengjanna.

„Ég þurfti að fara alveg á þeirra stig, og nota hugmyndaflugið. Sá eldri sem er fjögurra ára sýndi auðvitað meiri áhuga á þessu en sá yngri sem eins árs, hann apaði bara eftir stóra bróðir. Ég held að jóga sé mjög mikilvægt fyrir börn. 

Það er nú þegar mikil örvun í gangi hjá börnum, alltaf þessi þáttur að fylla stundaskrána, leikskóli, íþróttir, sund, matarboð, úti að leika og horfa á teiknimyndir. 

Jóga gefur barninu smá ró og einnig tól og tæki til þess að læra á lífið og skilja sjálft sig betur, koma fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig. Það er líka mikill agi og kærleikur í jóga sem að mér finnst vera mjög mikilvægt. Það ætti klárlega að kenna jóga í öllum grunnskólum og leikskólum, engin spurning.“

Þættirnir sem Þóra hefur sett á Youtube eru meira hugsaðir fyrir yngstu kynslóðina en ættu að vera skemmtilegir fyrir alla krakka. Þóra segir að jóga snúist umfram allt um að líða vel í eigin líkama.

„Lífið er eitt stórt verkefni og maður þarf að fylla kistuna af verkfærum. Hugleiðsla og jóga er eitt af þeim verkfærum sem að hjálpa mér að takast á við hindranir í lífinu. Öndunin skiptir lykilatriði í jóga, það kyrrir hugann og hjálpar manni að ná betri tökum á sjálfum sér. Það er þessi vellíðunartilfinning sem að kemur um mig alla þegar að ég er búin að hlaupa eða gera jóga. Það er ekki hægt að líða illa eftir jóga. Það hjálpaði mér mjög mikið að samtvinna hlaup og jóga, því að í svona löngum hlaupum þá er það hugurinn sem að skiptir öllu máli. Hugurinn segir líkamanum að klára hlaupið.“


Tengdar fréttir

„Ofbeldið hafði óafturkræf áhrif á mig sem barn og unga konu“

Fjölgun hefur verið á tilkynningum um ofbeldi í faraldri kórónuveirunnar hér á landi, meðal annars vegna ofbeldis gegn börnum. Sigríður Björnsdóttir sálfræðingur varð fyrir kynferðisofbeldi í æsku og hefur helgað líf sitt að fræða aðra og hjálpa fólki að vinna úr áföllum.

Þakklátur fyrir að fá að segja sögurnar á bak við augnablikin

Ragnar Axelsson ljósmyndari, betur þekktur sem RAX, segist vera smámunasamur og fer oft margar ferðir á sama staðinn til að ná réttu myndinni. Í nýjum þáttum segir hann frá sínum þekktustu ljósmyndunum og öllu því sem hann lagði á sig til þess að fanga þau augnablik.

Loksins í bílstjórasætinu í eigin líkama

Fyrir tveimur árum ákvað Hanna Þóra að ná stjórn á lífsstílnum sínum. Hún var þá þrítug en alltaf þreytt og orkulaus. Liðverkir, andþyngsli og bakflæði einkenndu hennar líðan, sem var erfitt þar sem hún er tveggja barna móðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×