Lífið

„Gaman að sjá hvað þátttakendur hafa mikið keppnisskap“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá mynd baksviðs fyrir fyrsta þáttinn.
Hér má sjá mynd baksviðs fyrir fyrsta þáttinn.

Kviss er nýr spurningaþáttur þar sem þekkt og skemmtilegt fólk keppir fyrir hönd íþróttafélaganna sem það styður. 16 lið mæta til leiks og keppa í útsláttarkeppni þar til eitt lið verður krýnt Íslandsmeistari í spurningakeppni í desember. Fyrsti þátturinn verður á dagskrá Stöðvar 2 á laugardagskvöldið.

„Þátturinn er fyrst og fremst léttur og skemmtilegur og áhorfendur heima í stofu eiga að geta svarað með. En það er samt mikið í húfi og hart barist. Liðin sem vinna sínar viðureignir halda áfram og í lokin krýnum við Íslandsmeistara í spurningakeppni,“ segur Björn Bragi Arnarson umsjónamaður þáttarins.

„Mér hefur lengi þótt það skemmtileg hugmynd að fá fólk til að keppa fyrir félagsliðið sitt í spurningakeppni. Þetta eru samt ekki íþróttaspurningar og fæstir keppendurnir eiga glæstan íþróttaferil að baki. Þetta er frekar fólk sem áhorfendur kannast við úr gríni, tónlist, sjónvarpi, leikhúsi og þess háttar.“

Hann segir að tökur hafi gengið ótrúlega vel og verið mikil stemning.

„Það er gaman að sjá hvað þátttakendur hafa mikið keppnisskap. Enda ekki annað hægt. Þú vilt ekki bregðast þegar þú ert að keppa undir merkjum íþróttafélagsins úr hverfinu eða bænum þínum.“

Í fyrstu viðureign mætast Breiðablik og FH. Lið Breiðabliks skipa Herra Hnetusmjör og Eva Ruza en lið FH skipa Jón Jónsson og Björg Magnúsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×