Forsetaslagur er framundan innan Ungra Jafnaðarmanna en Ragna Sigurðardóttir og Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson hafa bæði tilkynnt um framboð. Landsþing Ungra Jafnaðarmanna fer fram í Reykjavík næstkomandi laugardag.
Í tilkynningu frá Rögnu segir að hún hafi tekið virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar undanfarin ár, meðal annars sem kosningastýra Samfylkingarinnar í Reykjavík í kosningum til borgarstjórnar 2018, og síðan sem varaborgarfulltrúi samhliða læknanámi. Hún starfar nú sem borgarfulltrúi í Reykjavík, auk þess að sitja í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.
Áður hafði hún gegnt formennsku í Röskvu, samtökum félagshyggjufólks innan Háskóla Íslands, og verið formaður Stúdentaráðs.
Í tilkynningu frá Óskari Steini segir að hann sé 26 ára gamall Hafnfirðingur sem starfi nú sem leiðbeinandi í leikskóla. Hann hafi verið virkur í starfi Ungra jafnaðarmanna og Samfylkingarinnar frá því árið 2013 og undanfarin tvö ár gegnt embætti varaforseta hreyfingarinnar.
Nikólína Hildur Sveinsdóttir er núverandi formaður Ungra Jafnaðarmanna.