Innlent

Staðan slæm á Suðurnesjum þar sem raðir hafi myndast eftir fjárhags- og mataraðstoð

Birgir Olgeirsson skrifar

Atvinnuleysið á Suðurnesjum er slæmt og á bara eftir að versna segir formaður verkalýðsfélags. Margir nái ekki endum saman og raðir hafi myndast eftir fjárhags- og mataraðstoð.

Isavia sagði 133 upp störfum í gær vegna samdráttar í flugi. Fyrir var staðan alvarleg á Suðurnesjum þar sem langflestir eru atvinnulausir, um 16,5 prósent og konur fleirri en karlar. Verkalýðsforingi segir stöðuna skelfilega.

„Staðan er vægast sagt skelfileg. Annað hvort ertu atvinnulaus eða þekkir einhvern sem er atvinnulaus,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Staðan muni versna með haustinu þegar uppsagnarfrestur marga rennur út. Erfiður tími bíður þeirra sem detta brátt út af tekjutengdum bótum.

„Þetta er náttúrlega mikið láglaunafólk sem er í mínu félagi og þetta er fólk sem lifir varla á milli mánaðamóta. Þegar sú staða kemur upp að þú ert að lækka meira í launum er fótunum kippt hressilega undan fólki,“ segir Guðbjörg.

Margir nái ekki endum saman.

„Og maður heyrir allskonar sögur núna þegar skólarnir eru að byrja. Fólk hafi ekki getað fatað börnin upp fyrir skólann og þegar leikskólarnir voru að byrja aftur. Það eru langar raðir hjá velferðarsjóði, kirkjunni og Fjölskylduhjálp. Það er greinilegt að þetta er að taka mikið í hjá fólki,“ segir Guðbjörg.

Hún hefur talsverðar áhyggjur af stórum hópi sem er að missa vinnuna í fyrsta sinn eftir langan starfsferil.

„Ég hef talsverðar áhyggjur af hópnum sem er á aldrinum 55 til 67 ára. Þetta er fólk sem er búið að vera í vinnu frá því það var 15, 16 og 17 ára. Hefur aldrei verið án vinnu og aldrei unnið önnur störf. Búin að vera í 20 til 30 ár hjá sama atvinnurekanda. Ég hef rosalegar áhyggjur af því að þessir einstaklingar festist á atvinnuleysisbótum vegna þess að þeir hafa kannski ekki aðra starfsreynslu eða telja sig ekki geta unnið við neitt annað. Það eru líka fordómar í atvinnulífinu gagnvart fólki sem er eldra en 55 ára. Ég hef áhyggjur af því að þessi hópur festist í kerfinu og fari ekki aftur út í atvinnulífið.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.