Innlent

Kjúklingur innkallaður níu sinnum oftar vegna gruns um salmonellu hér á landi en í Danmörku á síðastliðnum tólf mánuðum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Brigitte Brugger er sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma hjá MAST.
Brigitte Brugger er sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma hjá MAST. STÖÐ2

Á síðustu tólf mánuðum hefur Matvælastofnun tilkynnt níu sinnum um grun um salmonellu í kjúklingi. Á sama tímabili barst matvælastofnuninni í danmörku ein slík tilkynning.

Sérgreinadýralæknir segir að innköllunum á kjúklingakjöti vegna gruns um salmonellu hafi fjölgað frá árinu 2019.

„Þessi aukning hefur verið skoðuð frá árinu 2019 og ástæðan hefur hreinlega ekki fundist nema að við vitum að það eru bú sem hafa verið smituð í mörg ár sem hafa ekki náð að losa sig við smit,“ sagði Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma hjá MAST.

Á síðustu tólf mánuðum hefur Matvælastofnun tilkynnt níu sinnum um grun um salmonellu í kjúklingi.STÖÐ2

27 kjúklingabú eru hér á landi. Athygli vekur að allar tilkynningarnar níu koma frá tveimur sláturhúsum. Það er hjá Matfugli og Reykjagarði.

Framkvæmdastjóri Matfugls segir hart tekið á málum þegar grunur um salmonellu kemur upp.

„Það eru tíu til ellefu ár síðan þetta barst með sojamjöli sem kom til landsins og hafði ekki verið passað nógu vel upp á í fóðurframleiðslu hjá þeim aðila og við erum en nað glíma við það. Við tökum deildir og erum óhræddir við að taka deildir úr framleiðslu ef þetta kemur upp,“ sagði Sveinn V. Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls.

Salmonellan virðist liggja í dvala og blossa upp við ákveðnar aðstæður.

Varðandi muninn á tíðni tilkynninga hérlendis og t.d. í Danmörku segir Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs að hann gæti m.a. legið í því að hérlendis sé meira lagt upp úr eftirliti og tilkynningaskyldu en erlendis. Auk þess séu ekki notuð sýklalyf í alifuglabúskap hérlendis til að fyrirbyggja sýkingar í fuglum að hans sögn.

Brigitte segir þó að sambærilegar reglur um sýnatöku séu hér og í nágrannalöndunum.

„Þegar salmonella finnst þá er tilteknu húsi lokað,“ sagði Brigitte.

Starfsemi fer þó áfram fram í húsum í kring.

En er það ekkert varhugavert að vera með framleiðslu á svæðinu í kring þegar það er svona mikil hætta á smiti?

„Það getur verið ástæða til að endurskoða þetta á þessum búum af því að það hefur verið aukning frá árinu 2019,“ sagði Brigitte.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.