Innlent

Þyrlu­ferðin „ó­boð­legt bruðl með al­manna­fé og öryggis­tæki al­mennings“

Atli Ísleifsson skrifar
Rósa Björk Brynjólsson sakar Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um dómgreindarbrest í færslu á Twitter.
Rósa Björk Brynjólsson sakar Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um dómgreindarbrest í færslu á Twitter. Vísir/Vilhelm

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur gagnrýnt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra harðlega, sem og starfsmenn Landhelgisgæslunnar, fyrir ferð þar sem ráðherra var fluttur úr hestaferð á Suðurlandi til Reykjavíkur og svo aftur til baka með þyrlu Gæslunnar.

„Eitt að starfsmenn [Landhelgisgæslunnar] sjái ekki hversu óviðeigandi það er að bjóða ráðherra skutl fram og tilbaka í prívat-hestaferð með þyrlunni, en að ráðherra sjái það ekki sjálf er dómgreindarbrestur. Óboðlegt bruðl með almannafé og öryggistæki almennings,“ segir Rósa Björk í færslu á Twitter þar sem hún vísar í frétt Stundarinnar sem greindi fyrst frá málinu.

Ráðherra fór í smitgát daginn eftir umrædda þyrluferð, eftir að tilkynnt hafði verið um hópsmitið á Hótel Rangá þar sem ríkisstjórnin snæddi kvöldverð síðastliðinn fimmtudag. 

Ráðherra hafði verið fluttur til Reykjavíkur til að sækja samráðsfund heilbrigðisráðherra.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir í samtali við RÚV að Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, hafi boðið Áslaugu Örnu í ferðina. Þyrlan hafi verið að störfum við Langjökul þennan dag og hafi ekki verið gerðar neinar tímabreytingar á flugi þyrlunnar til að aðlaga flugið áætlunum ráðherrrans.

Ennfremur er haft eftir Ásgeiri að flugstjóri þyrlunnar sé nú í sóttkví þar sem hann hafi reynst í svokölluðum innri hring hópsmitsins á Hótel Rangá þar sem hann hafi fengið sér morgunmat á hótelinu á sunnudagsmorgun. Ráðherra var hins vegar í ytri hring smitsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×