Innlent

Fjöldi smita sýnir hversu skæð veiran er

Sylvía Hall skrifar
Katrín Jakobsdóttir mun þurfa í tvöfalda skimun og smitgát eftir kvöldverð með ríkisstjórninni á Hótel Rangá.
Katrín Jakobsdóttir mun þurfa í tvöfalda skimun og smitgát eftir kvöldverð með ríkisstjórninni á Hótel Rangá. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir vel hafa verið gætt að sóttvarnaráðstöfunum á vinnufundi ríkisstjórnarinnar sem og í kvöldverðinum á Hótel Rangá. Átta smit hafa komið upp á hótelinu en ríkisstjórnin snæddi þar á þriðjudagskvöld.

Greint var frá því á vef Ríkisútvarpsins að mikill fjöldi fólks þurfi í sóttkví vegna smitanna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir endanlega tölu ekki liggja fyrir en ljóst er að það geti verið hundruð manns sem þurfi í sóttkví. Raðgreining á veirunum liggi ekki enn fyrir. 

Engin tengsl voru á milli þeirra sem smituðust önnur en þau að öll voru staðsett á hótelinu. 

Í færslu á Facebook-síðu sinni ítrekar Katrín að ríkisstjórnin teljist til ytri hring mögulegs smithóps og því ekki líklegt að þau séu í mikilli hættu á að hafa smitast. Tveir ráðherrar voru fjarverandi, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, og munu því ekki þurfa í tvöfalda skimun og smitgát.

„Vel var gætt að sóttvarnaráðstöfunum bæði á vinnufundi og um kvöldið en þessi fjöldi smita á þessum stað sýnir auðvitað hve skæð og bráðsmitandi veiran er,“ skrifar Katrín.

Hún segir sóttvarnayfirvöld hafa brugðist við með „skýrum og fumlausum hætti“ en fjöldi fólks þurfi í sóttkví eða skimun. Hún óskar þeim sem reyndust smitaðir góðs bata og vonar að allt fari vel.


Tengdar fréttir

Sjö smituð á Hótel Rangá

Sex gestir og einn starfsmaður á Hótel Rangá reyndust smitaðir af kórónuveirunni og hefur hótelinu verið lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×