Innlent

Vonar að fljótlega verði hægt að slaka á hömlum innanlands

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Sóttvarnalæknir vonar að fljótlega verði hægt að draga úr hömlum sem nú eru í gildi innanlands, í ljósi þess að vel hafi gengið að ná böndum á faraldurinn. Tveir greindust innanlands í gær og alls eru nú 117 í einangrun og fækkar milli daga. 439 eru í sóttkví og einn á sjúkrahúsi.

„Við þurfum að gæta áfram vel að öllum varúðarráðstöfunum hér innanlands og vonandi tekst okkur að ná bara mjög góðum tökum þannig að við getum fljótlega farið að slaka á hömlum hér innanlands. Ég held að það sé það sem er í pípunum núna,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi í dag.

Hann ítrekar að á meðan smitum innanlands hafi farið fækkandi, hafi þeim farið fjölgandi sem greinast á landamærum. 

„Einhverjir hafa túlkað orð mín svo undanfarið að ég teldi að nákvæmlega þessar aðgerðir sem nú eru í gangi þurfi að vera í einhverja mánuði eða ár. En það er ekki það sem ég hef sagt, heldur að það þurfi að vera einhvers konar takmarkanir og einhvers konar aðgerðir á landamærunum en eins og annað sem við erum að gera þá þarf það að vera í sífelldri endurskoðun,“ segir Þórólfur.

Stefnt er að því að koma á kerfi til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika.

„Við erum að skoða ýmsar leiðir í því og til dæmis það að útbúa einhvers konar stigskiptingu ástands á hverjum tíma. Ekki bara þessi almannavarnastig heldur að innan hvers stigs getum við notað litakóða. Svipað kannski eins og við þekkjum með veðrið, þar sem eru gefnar út viðvaranir, jafnvel bundnar við ákveðna landshluta eftir ástandi á hverjum tíma,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×