Innlent

Svíar muni sjá um að koma bóluefni til Íslands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lena Hallengren er heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Svíþjóðar.
Lena Hallengren er heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Svíþjóðar. EPA/Claudio Bresciani

Sænsk stjórnvöld munu taka að sér að dreifa mögulegu bóluefni við kórónuveirunni til Íslands í gegn um samstarfsverkefni Evrópusambandsins. Þetta kom fram í máli Lenu Hallengren, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Svíþjóðar á fréttamannafundi í dag. Frá þessu greinir sænski miðillinn Aftonbladet.

Samstarfsverkefnið snýst um kaup á 300 milljón skömmtum af bóluefni sem talið er líklegt til að verka á kórónuveiruna. Auk Evrópusambandsríkjanna munu Sviss, Noregur og Ísland taka þátt. Bóluefnið, sem unnið er af breska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca í samstarfi við Oxford-háskóla, er eitt nokkurra sem komin eru á seinni stig klínískra rannsókna og þykja lofa góðu.

Í Svíþjóð búa um 10 milljónir manna og sagði ráðherrann að Svíar ættu von á að fá um 6 milljónir skammta af bóluefninu í sinn hlut. Klínískar rannsóknir eiga þó eftir að leiða í ljós hvort fólk muni þurfa tvo skammta af bóluefninu til þess að það virki, eða hvort einn skammtur muni duga.

Ekki liggur fyrir hvenær bóluefnaskammtarnir yrðu afhentir, en öll ríki myndu fá bóluefnið til sín á sama tíma.

Svíar munu auk þess að hafa milligöngu um að koma bóluefninu til Íslands, leiði rannsóknir í ljós að það sé virkt og öruggt, dreifa því til nágranna sinna í vestri, Norðmanna.

Auk þessa verkefnis hefur Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lýst því yfir að íslensk stjórnvöld séu áhugasöm um að taka þátt í COVAX, alþjóðlegu verkefni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um bóluefni við kórónuveirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×