Innlent

Allir starfsmenn sem sinna þrifum í verkfalli: Staðan á salernum slæm

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Allir sex sem sinna þrifum í Réttarholtsskóla eru í Eflingu og hefur verkfallið því mikil áhrif á skólastarf. Víða í skólanum er farið að sjá að ekki hafi verið þrifið lengi til dæmis á salernum.
Allir sex sem sinna þrifum í Réttarholtsskóla eru í Eflingu og hefur verkfallið því mikil áhrif á skólastarf. Víða í skólanum er farið að sjá að ekki hafi verið þrifið lengi til dæmis á salernum. Vísir/Egill

Réttarholtsskóla var lokað í dag þar sem ekki hefur tekist að þrífa skólans vegna verkfalls Eflingar og óvíst hvenær nemendur geta mætt aftur.

„Ástandið er ekki gott. Við þurftum að loka skólanum í dag. Hér eru starfandi sex starfsmenn sem eru innan Eflinga og eru í verkfalli þeir sjá um öll þrif á skólanum. Þannig að eftir þrjá daga með 450 manns í húsi þá fer staðurinn að láta á sjá. Þannig að við töldum best að loka í dag,“ segir Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri í Réttarholtsskóla. Hún segir mest mæða á salernum þar sem staðan sé slæm og á matsalnum.

Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri í Réttarholtsskóla segir óvíst hvenær nemendur komast aftur í skólann. Vísir/Egill

Margrét er sú eina í skólanum sem má ganga í störf Eflingarfólks í verkfalli. Hún hefur hingað til séð um að taka til í matsalnum. „Þannig ég hef staðið vaktina í hádeginu og gengið frá eftir hádegismat,“ segir Margrét.

Áhrifa verkfallsins gætir í fleiri skólum þar sem mörg börn hafa þurft að koma með nesti síðustu daga. Þá er misjafnt hversu vel gengur að halda skólunum hreinum þar sem Eflingarfólk sér um þrif í mörgum þeirra. Í Grandaskóla hefur aðeins tekist að halda hluta skólans í horfinu og því er bara hægt að taka á móti hluta nemenda á morgun og næstu daga. Fleiri skólar sjá fram á að þurfa að fara sömu leið ef ekki tekst að leysa kjaradeiluna á næstunni og skerða skólastarf.

Margrét segir óvíst hvenær nemendur geta mætt aftur í skólann. „Við munum upplýsa foreldra á morgun hver endanleg niðurstaða verður með næstu viku en það er svona í burðarliðnum að bjóða 10. bekk upp á kennslu hér bóklega. Allavega þrjá daga í næstu viku og hugsanlega eitthvað 9. bekk og svo einhverskonar fjarnám,“ segir Margrét.  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.