Innlent

Enn fleira Eflingarfólk gæti farið í verkfall

Kjartan Kjartansson skrifar
Fleiri en Reykjavíkurborg gætu fundið fyrir verkfallsaðgerðum Eflingar á næstunni.
Fleiri en Reykjavíkurborg gætu fundið fyrir verkfallsaðgerðum Eflingar á næstunni. Vísir/Arnar H

Rúmlega fimm hundrað félagsmenn stéttarfélagsins Eflingar sem starfa hjá einkareknum skólum og hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg gætu farið í verkfall í næsta mánuði. Greiða á atkvæði um verkfallsaðgerðir þeirra á þriðjudag.

Ótímabundið verkfall Eflingarfólks sem starfar fyrir Reykjavíkurborg hófst aðfararnótt þriðjudags. Um 270 félagar í Eflingu sem starfa undir samningi félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga og rúmlega 240 sem starfa hjá einkareknum skólum sem eiga aðild að Samtökum sjálfstæðra skóla gætu bæst í hópinn á næstu vikum.

Í tilkynningu á vef Eflingar kemur fram að hóparnir tveir greiði atkvæði um verkföll í næstu viku. Gert sé ráð fyrir að verkföll verði ótímabundin og hefjist mánudaginn 9. mars. Atkvæðagreiðslunni á að ljúka laugardaginn 29. febrúar.

Samningur Eflingar við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út 31. mars í fyrra. Hann er óháður Reykjavíkurborg og undir sjálfstæðu viðræðuferli.

„Undir samningnum eru störf ófaglærðra við umönnun, gatnaviðhald og fleira, mestmegnis hjá Kópavogs- og Seltjarnarnesbæ. Samninganefnd félagsmanna Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga lýsti viðræður hjá Ríkissáttasemjara árangurslausar á samningafundi í dag og samþykkti í kjölfar þess að bera tillögu um boðun vinnustöðvunar undir atkvæði félagsmanna. Félagsfundur félagsmanna Eflingar hjá sveitarfélögunum í síðustu viku hafði þegar lýst stuðningi við verkfallsboðun,“ segir í tilkynningu Eflingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×