Innlent

Enn fleira Eflingarfólk gæti farið í verkfall

Kjartan Kjartansson skrifar
Fleiri en Reykjavíkurborg gætu fundið fyrir verkfallsaðgerðum Eflingar á næstunni.
Fleiri en Reykjavíkurborg gætu fundið fyrir verkfallsaðgerðum Eflingar á næstunni. Vísir/Arnar H

Rúmlega fimm hundrað félagsmenn stéttarfélagsins Eflingar sem starfa hjá einkareknum skólum og hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg gætu farið í verkfall í næsta mánuði. Greiða á atkvæði um verkfallsaðgerðir þeirra á þriðjudag.

Ótímabundið verkfall Eflingarfólks sem starfar fyrir Reykjavíkurborg hófst aðfararnótt þriðjudags. Um 270 félagar í Eflingu sem starfa undir samningi félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga og rúmlega 240 sem starfa hjá einkareknum skólum sem eiga aðild að Samtökum sjálfstæðra skóla gætu bæst í hópinn á næstu vikum.

Í tilkynningu á vef Eflingar kemur fram að hóparnir tveir greiði atkvæði um verkföll í næstu viku. Gert sé ráð fyrir að verkföll verði ótímabundin og hefjist mánudaginn 9. mars. Atkvæðagreiðslunni á að ljúka laugardaginn 29. febrúar.

Samningur Eflingar við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út 31. mars í fyrra. Hann er óháður Reykjavíkurborg og undir sjálfstæðu viðræðuferli.

„Undir samningnum eru störf ófaglærðra við umönnun, gatnaviðhald og fleira, mestmegnis hjá Kópavogs- og Seltjarnarnesbæ. Samninganefnd félagsmanna Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga lýsti viðræður hjá Ríkissáttasemjara árangurslausar á samningafundi í dag og samþykkti í kjölfar þess að bera tillögu um boðun vinnustöðvunar undir atkvæði félagsmanna. Félagsfundur félagsmanna Eflingar hjá sveitarfélögunum í síðustu viku hafði þegar lýst stuðningi við verkfallsboðun,“ segir í tilkynningu Eflingar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.