Innlent

Segir mál Elínar snúast um grundvallarréttindi

Heimir Már Pétursson skrifar

Málflutningur fer fram eftir hálfan mánuð í Hæstarétti um kröfu fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Landsbankanum um að mál hennar verðið endurupptekið vegna óhæfi dómara. Mannréttindadómstóllinn dæmdi henni í vil í dag.

Sigurjón Þ. Árnason, Elín Sigfúsdóttir og Steinþór Gunnarsson, allt yfirmenn hjá Landsbankanum, voru dæmd í níu mánaða til þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik í svo kölluðu Ímon máli í Hæstarétti í október 2015. Nú hefur Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að einn dómaranna í Hæstarétti hafi verið vanhæfur.

Elín taldi þrjá dómara Hæstaréttar vanhæfa vegna hlutafjáreignar þeirra í viðskiptabönkunum fyrir hrun, en Mannréttindadómstóllinn taldi aðeins einn þeirra hafa verið það í máli hennar vegna 8,5 milljón króna hlutar í Landsbankanum. Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður Elínar segir bæði stjórnarskrá og réttarfarslög taka á hæfi dómara hér á landi. En hinn 11. mars er málflutningur fyrir Hæstarétti í kröfu Elínar um endurupptöku málsins.

„Og það eru ekki ósvipuð sjónarmið, eða eiginlega mjög svipuð sjónarmið, lögð til grundvallar í mannréttindasáttmálanum. Þannig að maður skyldi ætla að þetta yrði eitthvað svipuð niðurstaða í Hæstarétti,“ segir Helga Melkorka.

Sigurjón og Elín voru sýknuð í Héraðsdómi en öll þrjú voru fundin sek um umboðssvik í Hæstarétti fyrir sölu á hlutabréfum í Landsbankanum til Ímon sem bankinn fjármagnaði að fullu.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi Elínu 1,7 milljónir í skaðabætur og tæpar 700 þúsund krónur vegna kostnað af málsókninni. Helga Melkorka segir málið fyrst og fremst snúast um réttlætissjónarmið.

„Og ákveðin grundvallarréttindi sem hver sá sem sakaður er um eitthvert brot og þarf að sæta meðferð fyrir dómi á að njóta. Þannig að þetta er ákveðin staðfesting á því að þessara réttinda var ekki gætt gagnvart henni,“ segir lögmaður Elínar Sigfúsdóttur.

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.