Innlent

Spáir stormi sunnan­til á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Á morgun spáir austlægum vindi með stormi syðst.
Á morgun spáir austlægum vindi með stormi syðst. vísir/vilhelm

Veðurstofan spáir norðan- og norðaustanátt í dag þar sem vindur verður víða á bilinu tíu til átján metrar á sekúndu. Má búast við björtu veðri á Suður- og Suðvesturlandi, en norðan og austanlands gengur á með éljum. Frost verður 0 til níu stig.

Á morgun spáir austlægum vindi með stormi syðst. Þó verður hægari vindur um landið norðaustanvert.

„Úrkomulítið og kalt í veðri, en snjókoma með köflum við suðvesturströndina. Um kvöldið er síðan útlit fyrir snjókomu víða sunnan- og vestanlands. Það snjóar væntanlega áfram á föstudag í stífri austanátt, þó einkum suðaustantil á landinu en á Suðvesturlandi lægir líklega og styttir upp,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Austan 13-18 og snjókoma með köflum við SV-ströndina, annars talsvert hægari og stöku él. Frost 2 til 12 stig, kaldast í innsveitum NA-lands.

Á föstudag: Austan 8-15 og snjókoma með köflum, en hægari og úrkomulítið á SV- og V-landi. Frost 0 til 8 stig.

Á laugardag: Austanátt með slyddu, snjókomu eða rigningu S- og A-lands, annars úrkomuminna. Hiti um eða yfir frostmarki.

Á sunnudag: Austanátt og rigning eða slydda með köflum, einkum SA- og A-lands. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag og þriðjudag: Suðlæg eða breytileg átt og él, hiti um frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×