Menning

Þjóð­leik­húsið nælir í Þor­leif Örn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri.
Þorleifur Örn Arnarsson, leikstjóri. Þjóðleikhúsið

Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri hefur gert samkomulag við Þjóðleikhúsið um að setja upp eina sýningu í leikhúsinu á hverju leikári næstu árin, að því er fram kemur í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu. Þar segir að Þorleifur muni jafnframt vinna með Þjóðleikhúsinu að því að efla alþjóðlegt samstarf leikhússins og veita leikhúsinu listræna ráðgjöf á tímabilinu. 

Þorleifur hefur getið sér gott orð sem leikstjóri í Evrópu á síðustu árum og starfar í leikhúsum víða um Evrópu. Nú gegnir hann stöðu yfirmanns leiklistarmála hjá Volksbühne í Berlín, einu virtasta leikhúsi Þýskalands. Hann var nýlega útnefndur leikstjóri ársins í Þýskalandi. 

Á undanförnum árum hefur hann sett upp verðlaunasýningar hérlendis, til að mynda Engla alheimsins, Njálu og Guð blessi Ísland. 

Þorleifur mun halda áfram að leikstýra við erlend leikhús samhliða því sem hann leikstýrir fyrir Þjóðleikhúsið, að því er segir í tilkynningu. Fyrsta frumsýning hans verður strax á næsta leikári, ný gerð Þorleifs af Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare. Þorleifur mun ekki vinna við önnur leikhús hérlendis.

Haft er eftir Þorleifi í tilkynningu að það sé honum mikið gleðiefni að snúa aftur til starfa við Þjóðleikhúsið.

„Það eru afskaplega spennandi hlutir að gerast í Þjóðleikhúsinu og leikhúsið stendur á skapandi tímamótum. Ég hlakka til að vinna með þeim öfluga hópi sem þar mun starfa á næstu árum.  Ég mun nýta reynslu mína og tengsl til þess að opna á alþjóðlegt samtal og samstarf.“

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir jafnframt í tilkynningu að það sé mikill fengur af því fyrir leikhúsið að fá Þorleif til liðs við það.

Töluverðar breytingar hafa orðið á starfsliði Þjóðleikhússins frá því að Magnús Geir tók við starfi þjóðleikhússtjóra um áramótin. Í síðustu viku var tilkynnt um að fimm listrænir stjórnendur, sem allir hafa starfað við Borgarleikhúsið undanfarin ár, hefðu gengið til liðs við Þjóðleikhúsið.

Um er að ræða þau Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur, listrænan ráðunaut og staðgengil leikhússtjóra, Ólaf Egil Egilsson, fastráðinn leikstjóra, Ilmi Stefánsdóttur, fastráðinn leikmyndahönnuð, Björn Bergsteinn Guðmundsson, yfirljósahönnuð og Unni Ösp Stefánsdóttur, sem vinna mun jöfnum höndum sem leikari og leikstjóri á komandi árum.


Tengdar fréttir

Kristín vill losna sem fyrst úr stóli Borgarleikhússtjóra

Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri hefur óskað eftir starfslokum hjá Borgarleikhúsinu einu og hálfu ári áður en hennar vertíð í húsinu á að ljúka. Hún greinir samstarfsfólki sínu frá þessu í tölvupósti og segist vera að hlusta á hjartað.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.