Lífið

Nanny McP­hee-stjarnan Rap­hael Coleman látin

Atli Ísleifsson skrifar
Raphael Coleman á frumsýningu Nanny McPhee árið 2005.
Raphael Coleman á frumsýningu Nanny McPhee árið 2005. Getty

Raphael Coleman, sem fór með hlutverk hins unga Eric Brown í kvikmyndinni Nanny McPhee árið 2005, er látinn, 25 ára að aldri.

Carsten Jensen, stjúpfaðir Coleman, segir frá andlátinu á Facebook þar sem hann segir barnastjörnuna fyrrverandi hafa „hnigið niður án þess að hafa glímt við fyrri heilsukvilla“.

Hinn breski Coleman fór með hlutverk í myndinni Nanny McPhee ásamt meðal annars þeim Emmu Thompson, Colin Firth og Angelu Lansbury.

„Hann fór með nokkur hlutverk, var verðlaunaður og hefði getað valið leiklistarferil. En hann vildi verða vísindamaður, ekki til að sprengja hluti líkt og persóna hans í Nanny McPhee, heldur til að bjarga plánetunni,“ segir Jensen.

Coleman fór með nokkur hlutverk í kvikmyndum, meðal annars vísindahrollvekjunni The Fourth Kind frá árinu 2009 áður en hann hellti sér út í baráttu fyrir umhverfisvernd. Ferðaðist hann víða um heim með umhverfisverndarsamtökunum Extinction Rebellion.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×