Innlent

Gríðarlegur vatnselgur í Vík og íbúar spara rafmagn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Vík í Mýrdal í morgun.
Frá Vík í Mýrdal í morgun. Sigurður Sigurbjörnsson

Varðstjóri í Vík í Mýrdal telur að veðrið hafi verið verst á svæðinu á milli klukkan sjö og átta í morgun. Síðan þá hefur hiti hækkað og nú er gríðarlegur vatnselgur á svæðinu.

„Milli klukkan sex og sjö var svona hálfs stigs frost en síðan hefur hitastigið hækkað eins og spáin var,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson varðstjóri.

Úrhelli hefur verið í Vík með þeim afleiðingum að Vegagerðin og bæjarstarfsmenn eiga fullt í fangi með að reyna að skila vatninu í niðurföll.

„Það var mjög snjóþungt í morgun og gríðarlegur vatnselgur núna.“

Sigurður segir eitthvað um laskaðar rafmagnslínur í Mýrdalnum og rafmagn er keyrt á varaafli í bænum.

„Fólk þarf að spara rafmagnið því álagið er mikið,“ segir varðstjórinn. Allir leggi sig fram um að halda rafmagninu gangandi.

Hótelin í Vík voru full í nótt af fólki sem átti flest hvað ekki bókaða gistingu heldur komst einfaldlega ekki lengra en í Vík vegna veðursins. Þá var fjöldahjálparstöð opnuð í félagsheimilinu Leikskálum á níunda tímanum í gærkvöldi. 22 gistu í stöðinni í nótt.

Sigurður telur veðrinu hægt og rólega vera að slota. Munur sé á því sem var snemma í morgun og núna. Lítið sé um skemmdir á svæðinu að frátöldum rafmagnsstaurum sem einhverjir eru laskaðir.

Meira hafi verið um útköll í nágrenni Hellu og Hvolsvelli í morgun.

Áttu myndir sem eru lýsandi fyrir stöðu mála í Vík? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×