Innlent

Stórt sár í húsþaki á Kjalarnesi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stórt sár er í þaki fjölbýlishússins.
Stórt sár er í þaki fjölbýlishússins. Vísir/jkj

Ætla má að alvarlegasta foktjónið sem orðið hefur á höfuðborgarsvæðinu, í hvassviðrinu sem gengið hefur yfir landið síðastliðinn sólarhring, hafi orðið á Kjalarnesi. Þar fauk stór hluti húsþaks við Jörfagrund og skyldi stórt sár eftir, eins og sjá má hér að ofan.

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni Kili á Kjalarnesi kom steypt plata undir þakinu þó í veg fyrir það að veðurofsinn hafi náð inn í íbúðina þar fyrir neðan. Enn er töluvert hvassviðri á Kjalarnesi, vindhraði um 25 m/s og hafa vindhviður reglulega farið yfir 40 m/s. Til að mynda mældist vindhraðinn 62 m/s á sjötta tímanum í morgun.

Þórður Bogason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í aukafréttatíma fréttastofunnar í hádeginu að ekki hafi verið talið óhætt að senda björgunarsveitar- eða slökkviliðsfólk á þakið til að varna frekar skemmdum. Hvassviðrið hafi verið slíkt á Kjalarnesi að það hafi ekki verið talið öruggt. Þeim hafi þó tekist að binda niður hluti þess, strengt „strappa“ um eina geymslu hússins.

Íbúðin undir gatinu var þó mannlaus að sögn Þórðar því enginn sé búsettur þar. Viðtalið við hann í heild má sjá hér að neðan.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að björgunarsveitarfólk hafi staðið í ströngu á Kjalarnesi frá því í nótt. Þakplötur hafi bókstaflega fokið á haf út í mestu hviðunum.

Fréttastofan greinir frá öllum nýjustu vendingum í rauntíma í Óveðursvaktinni.


Tengdar fréttir

Þakplata fauk á mann í Hvalfirði

Björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn vinna nú að því að komast á vettvang en arfavitlaust veður er á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×