Lífið

Nærmynd af Stefáni Eiríkssyni: Partýkall sem tekur alltaf Duran Duran og elskar að brjóta saman þvott

Sylvía Hall skrifar
Stefán tekur til starfa á RÚV þann 1. mars næstkomandi en hann er lögfræðingur að mennt.
Stefán tekur til starfa á RÚV þann 1. mars næstkomandi en hann er lögfræðingur að mennt. Skjáskot

Stefán Eiríksson, borgarritari Reykjavíkurborgar og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur verið ráðinn útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins til næstu fimm ára. Stefán tekur til starfa á RÚV þann 1. mars næstkomandi en hann er lögfræðingur að mennt sem hefur komið víða við á lífsleiðinni.

Stefán fæddist á Akureyri þann 6. júní árið 1970. Hann lauk grunnskólaprófi frá Hagaskóla í maí 1986 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember 1990.

Stefán er sagður mjög vanafastur og skipulagður maður en um leið menningarlega sinnaður fagurkeri sem hefur mikinn unað af allskyns kveðskap, íslenskri ljóðlist og Eurovision. „Stefán er bara rosalega geðgóður maður,“ segir Ari Eldjárn um Stefán, en þeir eru hljómsveitarfélagar. Eiginkona hans, Helga Snæbjörnsdóttir, tekur í svipaðan streng og segir hans helsta kost vera hvað hann sé mikill morgunhani.

„Þetta hefur orðið til þess að ég fæ yfirleitt alltaf frí á morgnanna,“ segir Helga. Hann sjái um morgunverkin, sem sé ómetanlegt. Hann vakni alltaf á sama tíma og morgunrútínan sé alltaf eins. Hann sé einnig frábær pabbi.

Stefán er sagður mikill morgunhani og gleðigjafi.Skjáskot

Hefur komið víða við 

Hann keppti í Morfís og Gettu betur fyrir hönd MH og var valinn ræðumaður Íslands í úrslitakeppni Morfís 1989. Síðar meir útskrifaðist hann frá lagadeild Háskóla Íslands eða í febrúar 1996.

Stefán gerðist blaðamaður á Tímanum við upphaf tíunda áratugarins og síðar á Morgunblaðinu árin 1991–1996 samhliða laganámi. Undir lok námsins var hann ráðinn sem lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Í kjölfar þess starfaði hann svo í sendiráði Íslands í Brussel og sinnti þar verkefnum á sviði dóms- og innanríkismála. Hann var í stjórn Neyðarlínunnar frá árinu 2002 og stjórnarformaður til ársins 2007.

Árið 2006 var Stefán skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann gegndi því starfi þar til hann varð sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í september 2014. Á milli verkefna hefur hann svo sinnt stundakennslu í Háskóla Íslands og við Háskólann í Reykjavík en hann kenndi líka lögfræði í Menntaskólanum við Hamrahlíð samhliða laganámi. Í desember 2016 réð borgarráð Reykjavíkurborgar Stefán í starf borgarritara.

„Ég þekki enga galla, ætli hann sé ekki bara fullkominn,“ segir Ari og hlær.

Ragna Árnadóttir segir þrjósku blunda í honum en það þvælist ekki fyrir honum. Hann hafi mikið jafnaðargeð þó það sé skap í honum. Hann hafi tamið sér það að leyna því vel þegar hann skiptir skapi.

„Maður þarf að vera búinn að vinna með honum í svolitla stund til að skilja að þessar vibrur við munninn, hvað þær þýða.“ 

Stefán var skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu árið 2006.Skjáskot

Forrest Gump týpa 

En ætlaði Stefán alltaf þá leið sem hann fór í lífinu?

„Já, ég held hann hafi verið búinn að kortleggja þetta alveg þegar hann var bara unglingur. Að verða lögfræðingur, og síðan lögreglustjóri og síðan vinna fyrir velferðarsvið borgarinnar. Vera aðstoðarmaður borgarstjóra og svo útvarpsstjóri. Þetta er vel þekkt leið, það hafa margir farið þessa leið,“ segir Ari og hlær en segir svo Stefán vera einhverskonar „Forrest Gump-týpu“.

„Hann flækist svolítið og fólk svona: Heyrðu, þú ættir að gera þetta. Já, okei, þá geri ég þetta.“

Helga segir hann þó hafa ætlað að verða leikara eða fara í íslensku.

„En svo bara leiddi lífið hann í lögfræði og eitthvað og allskonar. Ég held til dæmis að þessi nýja vinna, að það sé eitthvað sem samræmist lífsmarkmiðum Stefáns þegar hann var yngri. Ekki það, ég veit svo sem ekkert út á hvað þetta starf gengur.“ 

Stefán þykir fantagóður söngvari.Skjáskot

Stórskemmtilegur í gleðskap en með afmælisfóbíu 

„Það má varla minnast á afmælisdaginn hans því hann þolir ekkert umstang í kringum sjálfan sig en svo getur hann gert allt fyrir okkur á okkar dögum,“ segir Helga og segir Stefán vera með svolitla afmælisfóbíu.

Hún segir það gleðja hann mest að gleðja aðra og hann leggi mikið á sig í þeim efnum. Aðrir vinir hans taka undir það og segja hann stórskemmtilegan í gleðskap. Þá sé hann einnig fantagóður söngvari.

„Við erum í stórum vinahópi úr Hagaskóla sem hefur kynnst upp á nýtt á síðustu árum, eins og verða vill. Það er ekki leiðinlegt að vera í partíum með Stefáni Eiríkssyni, ég get sagt ykkur það,“ segir Auðunn Atlason æskuvinur Stefáns.

Hér að neðan má sjá nærmynd af Stefáni Eiríkssyni í Íslandi í dag.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.