Lífið

Ætla á Borgarfjörð eystri en aka svo í Borgarnes vestra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Helgi Hlynur Ásgrímsson við upptökur á þættinum Um land allt.
Helgi Hlynur Ásgrímsson við upptökur á þættinum Um land allt. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Dæmi eru um að fólk sem ætlar á tónlistarhátíðina Bræðsluna á Borgarfirði leiti hennar í Borgarnesi. Það virðist ekki hafa áttað sig á því að til eru fleiri Borgarfirðir á landinu. Sá á Austfjörðum er ýmist aðgreindur með „eystri“ eða „eystra“. Hvort tveggja telst málfræðilega „rétt“ en nafn sveitarfélagsins er Borgarfjörður eystri.

Fjallað var um þennan rugling í þættinum Um land allt á Stöð 2.

„Við skerum okkur dálítið mikið úr með því að þurfa að segja hvar á landinu. Jú, stundum er það óþægilegt og fyrir ferðamenn getur þetta verið óþægilegt. Það hefur alveg komið fyrir að fólk leiti að Bræðslunni í Borgarnesi,“ sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, trillukarl, rollubóndi og vert í Fjarðarborg.

Elísabet Dögg Sveinsdóttir, rekstrarstjóri gistihússins Blábjarga, ræddi muninn á Borgarfjörðunum.

Elísabet Dögg Sveinsdóttir, fyrsti varahreppsnefndarfulltrúi á Borgarfirði eystri og rekstrarstjóri Blábjarga.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Nei, ég er úr hinum Borgarfirði. Hann er kallaður Borgarfjörður síðri hér. Ég er sem sagt úr Skorradal.“

-Er þetta þá kannski Borgarfjörður betri?

„Já, ætli það megi ekki segja það. Mamma viðurkennir það ekki. Skilur ekki hvað ég er að þvælast hérna. En mér finnst voða gott að vera hérna.“

-Hvað er það eiginlega?

„Heyrðu bara! Sjáðu! Fjöllin. Náttúran. Álfarnir. Mér líður bara mjög vel hérna. Ég var búin að ferðast um allan heim og endaði svo hér.“

Þriðji Borgarfjörðurinn er á Vestfjörðum, einn af innfjörðum Arnarfjarðar, en þar er Mjólkárvirkjun.

Hér má sjó brot úr þættinum:


Tengdar fréttir

Samþykktu sameininguna með afgerandi hætti

Kosið var um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í dag. Sameiningin var samþykkt í öllum sveitarfélögunum fjórum með allt frá 64 til 93% atkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×