Innlent

Hátt í hundrað tilkynningar bárust um skjálftann

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá Hellisheiðarvirkjun.
Frá Hellisheiðarvirkjun.

Jarðskjálfti sem mældist 3,7 að stærð og átti upptök sín við Hengilinn í morgun fannst allt frá Selfossi og upp í Borgarfjörð. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu skjálftanum en Veðurstofunni bárust hátt í eitt hundruð tilkynningar um jarðskjálftann. 

Það var rétt fyrir klukkan hálf átta í morgun sem skjálftinn varð. „Skjálftinn mældist tuttugu og fjórar mínútur yfir sjö í morgun og var 3,7 að stærð. Hann er vestan við Hengilinn eða um það bil fjórar kílómetra norðvestur af Hellisheiðarvirkjun. Það hafa um tíu mun minni eftirskjálftar fylgt þessum skjálfta og þeir eru allir minni en einn að stærð,“ segir Einar Bessi Getssson er náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Skjálftans varð víða vart. „Við höfum fengið um níutíu tilkynningar frá öllu höfuðborgarsvæðinu. Austur að Selfossi og upp í Borgarfjörð,“ segir Einar Bessi. „Þetta er á mjög virku svona jarðskjálftasvæði þarna Hengilinn þannig að líklegast er um að ræða jarðskorpuhreyfingar þannig það má kannski búast við að það haldi áfram einhverjir svona eftirskjálftar að tikka inn í kerfið,“ segir Einar Bessi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×