Innlent

„Þetta er ekki eitt af þessum málum sem mun lognast út af og hverfa“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Formaður stjórnarskrárfélagsins segir að lýðræðið sé sameign allra landsmanna og þess vegna sé það á ábyrgð hvers og eins að láta það virka sem skyldi.
Formaður stjórnarskrárfélagsins segir að lýðræðið sé sameign allra landsmanna og þess vegna sé það á ábyrgð hvers og eins að láta það virka sem skyldi. Aðsend

Í dag kom Alþingi saman á ný til fundar eftir jólahlé. Af því tilefni býður Stjórnarskrárfélagið og Samtök kvenna um nýja stjórnarsrá til mótmælafundar við Alþingishúsið klukkan fimm síðdegis.

Í skugga Samherjamálsins var blásið til nokkurra mótmælafunda fyrir áramót undir yfirskriftinni Lýðræði ekki auðræði.

Þess var - og er enn krafist - að sjávarútvegsráðherra segi tafarlaust af sér, að Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá og að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings.

Katrín Oddsdóttir, formaður stjórnarskrárfélagsins, segir öll velkomin á mótmælafundinn. Lýðræðið sé sameign allra landsmanna og þess vegna sé það á ábyrgð hvers og eins að láta það virka sem skyldi.

„Það gleymist svo oft, þegar við tölum um sameign, hvað við virkilega eigum saman. Jú, við eigum heilbrigðiskerfið, vegakerfið og menntakerfið en við eigum líka lýðræðið okkar saman. Það er á ábyrgð okkar allra að láta það virka. Nú höktir það talvert mikið í höndunum á Alþingi og þá verðum við að sýna Alþingi að okkur þyki nógu vænt um þingið og lýðræðið til þess að veita því alvöru aðhald.“

Katrín segir að mótmælendur muni halda áfram þar til stjórnvöld bregðast við ákalli þeirra.

„Ég er að minna þau á það að það er sú staðreynd uppi í samfélaginu okkar að við erum með mjög skýrar kröfur frá almenningi um það að við viljum ákveðnar breytingar og það er líka mjög skýrt að það er ekki verið að hlusta. Þetta er ekki eitt af þessum málum sem mun lognast út af og hverfa eins og væntanlega er von þeirra sem skella skollaeyrunum við þessu. Við höldum áfram alveg þangað til við náum þeim árangri sem við höfum einsett okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×