Innlent

Villuráfandi skarfur var í vandræðum við Kárastíg

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skarfurinn var nokkuð gæfur en kolvilltur.
Skarfurinn var nokkuð gæfur en kolvilltur. Mynd/Hlíf Una Bárudóttir

Hlíf Una Bárudóttir, íbúi við Kárastíg í Reykjavík, rak upp stór augu fyrr í dag þegar stærðarinnar skarfur var á ferðinni um götuna.

„Þessi gaur er að þvælast á Kárastíg og virðist lítill í sér. Hvert hringir kona vegna villuráfandi skarfa?“ skrifaði Hlíf á Facebook í dag og birti hún myndir á Facebook af fuglinum fagra.

Skarfurinn reyndist bæði vera ungur og hraustur.Mynd/Hlíf Una Bárudóttir

Í samtali við Vísi segir Hlíf að svarið við spurningunni sé Reykjavíkurborg. Eftir að hafa náð þangað inn og útskýrt erindið var meindýraeyðir sendur á vetvang.

„Hann fræddi mig um það skarfar geti ekki hafið sig á loft nema á vatni þannig að hann væri í raunverulegum vandræðum,“ segir Hlíf en talið er líklegt að skarfurinn hafi hreinlega fokið inn í borgina í hvassviðrinu sem þar hefur verið í dag.

Bjargvætturinn á vegum borgarinnar fangaði fuglinn með háfi og eftir því sem Hlíf best veit var skarfinum sleppt við sjóinn.

„Ég fylgdi honum ekki á enda en maðurinn sem kom hingað sagði að þetta væri ungur og hraustur fugl og það væri minnsta málið að keyra hann niður að sjó.“

Hlíf náði meðfylgjandi myndum af skarfinum sem hún sagði hafa verið nokkuð gæfan eftir að hann plantaði sér á Káratorg, þar sem hann var í um tvo tíma áður en hann var fluttur niður að sjónum.

Skarfar eru sjófuglar sem halda sig helst við ströndina eða á vötnum nálægt sjó, en eru alla jafna sjaldséðir inn í íbúðarhverfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×