Innlent

Fjölmargir sóttu japanska hátíð

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Gestir hátíðarinnar voru margir hverjir klæddir eins og japanskar teiknimyndapersónur
Gestir hátíðarinnar voru margir hverjir klæddir eins og japanskar teiknimyndapersónur SIGURJÓN ÓLASON

Japönsk hátíð fór fram í húsakynnum Háskóla Íslands í dag. Gestir hátíðarinnar fengu fræðslu um bardagaíþróttina Júdó, lærðu að búa til sushi og klæddu sig upp í japanska þjóðbúninginn Kimono svo fátt eitt sé nefnt.

Sendiráð Japans stendur fyrir hátíðinni í samstarfi við japönskudeild Háskóla Íslands. Fjölmargir sóttu hátíðina enda fjölbreytt dagskrá í boði. Stútfullt var á matreiðslunámskeiði hátíðarinnar þar sem gestir lærðu að búa til sushi frá grunni.

Er flókið að búa til sushi?

„Já eiginlega. Maður þarf að vanda sig alveg rosalega,“ sagði Elín Guðmundsdóttir.

Er þetta í fyrsta sinn sem þú býrð til sushi frá grunni?

„Já, þetta er í fyrsta sinn. Þetta er föndur,“ sagði Elín.

Margir sóttu matreiðslunámskeið að hætti JapanaSIGURJÓN ÓLASON

Á hátíðinni stóð gestum einnig til boða að sitja fyrirlestur um bardagaíþróttina Júdó. Salurinn var þétt setinn og því greinilegt að áhugi á íþróttinni er mikill.

Fjölmargir sóttust eftir því að fá nafn sitt ritað á japönsku á meðan þeir dáðust að listrænu nesti að hætti Japana.

Þá vakti það mikla kátínu hjá yngri kynslóðinni að fá tækifæri til að máta Japanska þjóðbúninginn Kimono en auk þess mátti sjá gesti hátíðarinnar klædda upp eins og japanskar teiknimyndapersónur.

Eru þetta þægileg föt?

„Já mjög þægileg,“ sögðu þær Ása Helena og Guðrún.

Væruð þið til í að fara svona klædd í skólann?

„Já,“ sögðu stelpurnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.