Innlent

Myndband sýnir þegar lá við bílveltu í slabbi á Suðurlandsvegi

Kjartan Kjartansson skrifar
Klaka og krapi rigndi yfir bíl Eyþórs þegar fólksbíllinn ók fram úr honum á vinstri akrein. Skömmu síðar snerist bíllinn fyrir hann.
Klaka og krapi rigndi yfir bíl Eyþórs þegar fólksbíllinn ók fram úr honum á vinstri akrein. Skömmu síðar snerist bíllinn fyrir hann. Eyþór H. Ólafsson

Ökumaður lítils fólksbíls var heppinn að velta ekki bíl sínum í miklu slabbi og klaka á Suðurlandsvegi í gærkvöldi, að mati annars ökumanns sem náði því á myndband þegar bíllinn snerist fyrir framan hann.

Eyþór H. Ólafsson, verkfræðingur, var á leið austur Suðurlandsveg um ellefu leytið í gærkvöldi. Þegar hann nálgaðist afleggjarann að Bolöldu, ekki langt vestan við Litlu kaffistofuna, tók hann eftir litlum fólksbíl sem var ekið fram úr honum á vinstri akrein.

Vegurinn er tvíbreiður á þessum slóðum. Hægri akreinin var auð en Eyþór segir við Vísi að mikið slabb hafi verið á vinstri akreininni eins og oft við aðstæður líkt og þær sem voru í gær. Á myndbandsupptöku úr bíl Eyþórs sést hvernig ökumaður litla fólksbílsins byrjar að missa stjórn á honum áður en hann snýst inn á hægri akreinina.

„Þannig að ég hægi á mér strax. Ég sá nokkurn veginn í hvað stefndi. Svo bara snýst hann og mátti þakka fyrir að velta honum ekki. Hann fer þarna þvert fyrir mig,“ segir Eyþór.

Slapp en munaði litlu

Eyþór segir að ekkert vit hafi verið í að aka fram úr á vinstri akreininni auk þess sem hinn bíllinn hafi verið kominn á yfir hundrað kílómetra hraða. Sjálfur aki hann þessa leið nær daglega og hann hefði ekki lagt í framúraksturinn, hvað þá á litlum fólksbíl sem þessum.

Betur fór þó en á horfðist. Eyþór fór fram úr bílnum sem snerist og segist hafa séð hann í baksýnisspeglinum aka aftur af stað eftir snúninginn.

„Það var ekkert að en það munaði bara sáralitlu að hann ylti eins og sést á myndbandinu,“ segir Eyþór.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.