Innlent

Vél British Airways snúið við vegna veðurs

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vél British Airways var snúið við vegna veðurs í dag.
Vél British Airways var snúið við vegna veðurs í dag. Getty/Gareth Fuller

Flugvél British Airways frá London sem lenda átti á Keflavíkurflugvelli rétt upp úr hádegi í dag var snúið við vegna veðurs.

Þá sveimuðu tvær vélar, á vegum SAS og Finnair, yfir flugvellinum uns unnt var að setja upp landgöngubrýr og koma farþegum vélanna þannig úr vélinni og inn í flugstöðina. Vélarnar áttu að lenda skömmu fyrir klukkan eitt í dag, en þurftu að seinka lendingu um einhverja tugi mínútna. Vél SAS kom hingað frá Ósló en vél Finnair frá Helsinki. 

Þetta sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Vísi.

„Landgöngubrýrnar eru teknar í notkun um 13:20 og báðar þessar vélar lenda svo skömmu síðar. Þá var hægt að hleypa farþegum frá borði,“ segir Guðjón.

Þegar útlit er fyrir að veður torveldi lendingar segir Guðjón að lokaákvörðun um hvort snúa skuli við, lenda annars staðar eða bíða færis til lendingar sé í höndum flugfélaganna og flugstjóra þeirra.

„Félögin og flugstjórar eru upplýst um stöðuna. Þeir hafa væntanlega tekið þá ákvörðun að bíða þar til færi gæfist,“ segir Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×