Innlent

Útköllum vegna hávaða í heimahúsum fjölgar milli ára

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Lögregla fór í nærri þrefalt fleiri hávaðaútköll í sumar en fyrir þremur árum. Yfirlögregluþjónn segir ljóst að partý hafi í auknum mæli færst í heimahús þegar skemmtistaðir loki snemma.

Samkvæmt tölum sem fréttastofa óskaði eftir frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru útköll vegna hávaða ríflega 1360 talsins árið 2017. Þau voru öllu fleiri árin 2018 og 2019 eða rétt ríflega sextán hundruð. Fyrstu sjö mánuði þessa árs hefur lögregla sinnt um 1350 útköllum.

Áberandi flest útköll eru vegna hávaða innandyra og mest er um slík útköll á sumrin. Séu sumarmánuðirnir skoðaðir sérstaklega kemur bersýnilega í ljós að útköllum hefur farið jafnt og þétt fjölgandi en árið í ár sker sig úr. Í maí til júlí 2017 bárust samanlagt 300 útköll vegna hávaða, 480 árið 2018 og í fyrra voru útköllin 523. Í maí til júní á þessu ári hafa útköllin verið 825, þar af 288 vegna hávaða utandyra en 537 vegna hávaða innandyra.

„Ef að skemmtistaðir eru lokaðir þá var það svo sem fyrirséð að fólk var að gera meira heima hjá sér og það væru fleiri partý og svoleiðis,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann brýnir fyrir fólki að sýna tillitssemi. „Þessi útköll í heimahús, þó að einhver sofi klukkutíma skemur þá verður honum yfirleitt ekki meint til frambúðar af því. Þannig að lögreglan er alveg sátt við þessi skipti, ef að það eru færri líkamsárásir en fleiri útköll vegna hávaða í heimahús ef það fylgir ekki eitthvað annað brot með,“ segir Ásgeir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×