Innlent

Litla-Grá og Lítla-Hvít komnar til síns heima

Sylvía Hall skrifar
Mjaldrasysturnar hafa verið fluttar í Klettsvík.
Mjaldrasysturnar hafa verið fluttar í Klettsvík. Aðsend

Mjöldrunum Litlu Grá og Litlu Hvít hefur verið komið fyrir í varanlegum heimkynnum sínum í Klettsvík við Vestmannaeyjar. Þær stöllur eru nú staðsettar í umönnunarlaug í kvínni þar sem þær aðlagast nýjum heimkynnum áður en þeim er endanlega sleppt út í kvína.

Klettsvík er staðsett við mynni Vestmannaeyjahafnar en hópur sérfræðinga og dýralækna fylgdu Litlu Grá og Litlu Hvít í flutningunum. Hvalirnir eru sagðir við hestaheilsu og nærast vel eftir stutta ferð frá aðlögunarstað þeirra í Vestmannaeyjum.

Mjaldrasysturnar voru fluttar frá Kína í júní á síðasta ári og tók ferðalagið nítján klukkustundir. Flugu þær frá Sjanghæ til Íslands og voru svo fluttar til Vestmannaeyja.

Þetta er í fyrsta sinn sem Litla Grá og Litla Hvít eru í náttúrulegu umhverfi í hafinu síðan þær voru fluttar frá rússneskri hvalarannsóknarstöð árið 2011 að því er segir í fréttatilkynningu um flutninginn. Þær verða undir stöðugu eftirliti sérfræðinga á meðan þær aðlagast aðstæðum.

Andy Bool, forstjóri SEA LIFE TRUST, segir það mikið ánægjuefni að mjaldrarnir séu komnir í Klettsvík. Þær séu nú einu skrefi nær því að vera sleppt út í kvína.

„Eftir miklar æfingar og undirbúning þá er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi allt gengið betur en við þorðum að vona. Nú tekur við aðlögun undir ströngu eftirliti sérfræðinga og dýralækna. Ég á von á að við getum flutt fréttir af því þegar þeim verður endanlega sleppt út í kvína fljótlega,” segir Andy Bool.


Tengdar fréttir

Litla grá og Litla hvít tilbúnar að flytja í Klettsvík

Mjaldrasysturnar tvær, Litla Grá og Litla Hvít flytja í varanleg heimkynni sín í Klettsvík í Vestmannaeyjum í júní. Aðlögun dýranna að kaldari sjó hefur gengið vel. Systurnar eru ólmar í athygli sem sýnir sig best þegar gesti ber að garði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×