Innlent

Þórólfur hefði viljað draga úr aðgengi ferðamanna að landinu hefði Íslensk erfðagreining ekki komið til hjálpar

Birgir Olgeirsson skrifar

Íslensk erfðagreining ætlar að aðstoða Landspítalann við skimanir vegna mikils álags. Sóttvarnalæknir hefði lagt til að dregið yrði úr aðgengi ferðamanna að Íslandi hefði fyrirtækið ekki hlaupið undir bagga. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir stöðu faraldursins ógnvekjandi.

Sóttvarnalæknir hefur skilað minnisblaði til heilbrigðisráðherra þar sem hann leggur til að farþegar verði skimaðir áfram á Landamærunum. Afkastageta veirufræðideildar Landspítalans er í hámarki. Íslensk erfðagreining mun taka hluta sýnanna og létta á deildinni þar til afkastagetan eykst í október.

„Það þýðir að það verður hægt að anna þeim fjölda ferðamanna sem er að koma til landsins ef það verður ekki veruleg aukning,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Ef Íslensk erfðagreining hefði ekki stigið inni hefðu aðeins tvær leiðir verið í stöðunni.

„Þá hefði annað hvort þurft að minnka aðgengi að Íslandi eða auka skimunargetuna á landamærunum,“ segir Þórólfur.

Hefði Íslensk erfðagreining ekki hlaupið undir bagga hefði þá þurft að stiga einhver skref til baka varðandi skimanir á landamærunum?

„Ég veit það ekki, mínar tillögur hefðu hljóðað þannig en síðan er það ráðamanna að ákveða hvað verður gert,“ segir Þórólfur.

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir fyrirtækið ætla að létta undir eins og hægt er. Fyrirtækið geti unnið úr 5.000 sýnum á dag en meta þurfi þörfina.

„Síðan er það hitt, hvernig mun þessi faraldur þróast núna. Því mér finnst þetta persónulega svolítið ógnvekjandi. Við erum komin með 28 einstaklinga sem ekki hafa verið tengdir saman sem hafa smitast af veirunni með sama stökkbreytingamynstrið,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Þessar hópsýkingar gætu þróast í meiriháttar faraldur eða horfið að mati Kára. Sú þróun muni ráða þörfinni. Kári býst ekki við að fyrirtækið þurfi að aðstoða Landspítalann lengi.

„Við getum lánað aðstöðu og tæki og svolítinn mannskap en þetta kemur til með að verða áfram verkefni Landspítalans.“

Fjórir greindust með veiruna innanlands í gær. 97 eru nú í einangrun og 795 í sóttkví.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.