Innlent

Nor­ræna flutningamanna­sam­bandið for­dæmir Icelandair

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Norræna flutningamannasambandið fordæmir aðgerðir Icelandair í kjaradeilunni við flugfreyjur. 
Norræna flutningamannasambandið fordæmir aðgerðir Icelandair í kjaradeilunni við flugfreyjur.  Vísir/Vilhelm

Norræna flutningamannasambandið, NTF, fordæmir aðgerðir Icelandair í kjaraviðræðum félagsins við Flugfreyjufélag Íslands. Sambandið hvetur Icelandair jafnframt til að bæta starfsandann hjá félaginu en svipaðar aðstæður hafi komið upp eftir kjaraviðræður annars félags og þar hafi starfsumhverfið, mörgum árum eftir atburðina, enn verið á ótraustum grunni.

Í yfirlýsingu frá NTF segir að ljóst sé að hinir ýmsu atvinnuvegir hafi orðið fyrir miklum skaða vegna kórónuveirufaraldursins, ekki síst flutningsgeirinn. Það liggi einnig í augum uppi að grafalvarleg staða sé uppi hjá mörgum flugfélögum en lausn vandans sé hins vegar ekki sú að beita stéttarfélög þrýstingi og hótunum til þess að veikja kjarasamninga.

„Við urðum fyrir miklum vonbrigðum þegar við fréttum frá FFÍ að á meðan á kjaraviðræðum stóð hafi Icelandair sagt upp öllum flugfreyjum með örstuttum fyrirvara. Fyrirtækið [sagði] FFÍ að það hygðist skipta út flugfreyjum fyrir flugmenn, sem höfðu á örskotsstund verið þjálfaðir til að gæta öryggis um borð. Þar að auki hafði fyrirtækið áætlanir um að semja við annað stéttarfélag og skipta FFÍ út, sem er eina félagið sem er í forsvari fyrir flugfreyjur á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá er það rifjað upp að kjarasamningar hafi verið samþykktir á síðustu stundu. NTF lýsir hins vegar yfir óánægju sinni vegna aðferðanna sem Icelandair beitti. Svipaðar aðstæður hafi áður komið upp hjá öðru flugfélagi sem hafi verið í kjaraviðræðum og mörgum árum síðar hafi starfsandinn enn verið í molum vegna atburðanna.

„Traust og gagnkvæm virðing eru lykilatriði þegar kemur að því að tryggja öruggt og gott starfsumhverfi um borð í flugvél. Enginn hópur starfsmanna ætti að vera notaður til þess að grafa undan hlutverki annarra starfsmanna. Við fordæmum harðlega áætlun félagsins og hvetjum fyrirtækið til að beita sig fyrir því að starfsandinn verði góður og allir sem eiga í hlut muni ná sáttum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×