Innlent

Níu innanlandssmit bætast við

Kristín Ólafsdóttir skrifar
436 sýni voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær.
436 sýni voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Þorkell Þorkelsson/Landspítali háskólasjúkrahús

Níu greindust með kórónuveiruna innanlands hér á landi síðasta sólarhringinn. Einn greindist með veiruna við landamærin en sá er með mótefni. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum á Covid.is. Þá liggur nú enginn lengur á sjúkrahúsi með veiruna en einn var lagður inn í lok síðasta mánaðar. Fram hefur komið að viðkomandi varð ekki alvarlega veikur.

Alls eru nú 93 í einangrun með veiruna á landinu. Þá eru 746 í sóttkví og fjölgar um 12 síðan í gær. Þá voru talsvert færri sýni tekin á landamærunum síðasta sólarhringinn en dagana á undan, alls 1.131. 436 sýni voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og 179 í skimun Íslenskrar erfðagreiningar.

Nýgengi innanlandssmita á landinu er nú orðið 21,0 og þar með til dæmis komið yfir þau nýgengismörk sem í gildi eru í Noregi. Ísland gæti þar með lent á svokölluðum „rauðum lista“ í Noregi, þ.e. lista yfir þau lönd sem Norðmönnum er ráðið frá því að heimsækja og frá hverjum ferðalangar þurfa að sæta sóttkví við komu til Noregs.

Langflestir af þeim sem eru með veiruna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, eða 67. Þá eru 582 þar í sóttkví. 

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.