Fréttir

Of snemmt að fagna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Frá upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Vísir/Arnar

Það er of snemmt að fagna árangri af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til þótt færri hafi greinst smitaðir af covid-19 í gær en undanfarna daga að sögn sóttvarnalæknis. Fjöldi smitaðra 10. mars var álíka mikill og nú, en þá liðu tæpar fjórar vikur þar til faraldurinn náði hámarki og fjöldi fólks hafði verið lagður inn á sjúkrahús.

Þrír til viðbótar greindust með covid-19 innanlands í gær og þar af voru tveir í sóttkví. Alls eru nú 83 með staðfest smit, einn er á sjúkrahúsi og 734 í sóttkví. Þann 10. mars voru 82 með staðfest smit, álíka margir og í dag, og tveir voru á sjúkrahúsi.

Tæpum fjórum vikum síðar, þann 5. apríl, þegar fjöldi virkra smita náði hámarki, voru tæplega ellefu hundruð sýktir og 34 voru á sjúkrahúsi. Uppsafnað höfðu þá 86 lagst inn á sjúkrahús en þegar mest lét voru 44 inniliggjandi samtímis sem var þann 2. apríl.

Sóttvarnalæknir segir að enn þurfi nokkrir dagar að líða áður en hægt sé að spá fyrir með vissu um þróun faraldursins nú.

„Eins og áður hefur komið fram þá er búist við að sjá sveiflur milli daga þannig ég held að það sé of snemmt að fagna árangri. Við þurfum að láta nokkra daga líða áfram áður en að við förum að slá einhverju föstu varðandi árangurinn af þeim aðgerðum sem við höfum gripið til,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi í dag.

Álag hefur aukist á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu að sögn Óskars Reykdalssonar forstjóra sem ítrekar mikilvægi þess að fólk sem finni fyrir einkennum hringi í sína heilsugæslu eða hafi samband ígegnum netspjall, í stað þess að mæta á svæðið. Bætt hefur verið verulega í sýnatöku á heilsugæslunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×