Lífið

Ellen biður starfsfólk afsökunar

Sylvía Hall skrifar
Ellen DeGeneres.
Ellen DeGeneres. Vísir/Getty

Spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres hefur beðið starfsfólk sitt afsökunar á þeirri menningu sem hefur viðgengist á vinnustað þáttanna. Nokkrir starfsmenn höfðu lýst starfsumhverfinu sem skaðlegu og að ógnarstjórn væri við lýði.

Eftir að ásakanirnar komu fram ákvað framleiðslufyrirtækið Warner Media að hefja rannsókn á vinnustaðnum og framkomu yfirmanna þar.

Á meðal þess sem kom fram í lýsingum starfsmanna voru ásakanir um rasísk ummæli og kalt viðmót yfirmanna. Starfsfólki hafi verið refsað fyrir að vekja athygli á vandamálum og dæmi væru um að fólki hefði verið sagt upp eftir að hafa þurft veikindaleyfi eða frí til þess að fara í jarðarfarir fjölskyldumeðlima.

Í tölvupósti sem Ellen sendi á starfsfólk sagðist hún ætla að tryggja að starfsumhverfið yrði betra. Fólk þyrfti að huga vel að því hvernig það talaði við hvort annað og hún sé þakklát að athygli hafi verið vakin á vandamálunum.

„Á fyrsta degi þáttanna sagði ég á fyrsta fundi að The Ellen DeGeneres Show yrði hamingjustaður. Enginn myndi hækka róminn og það yrði komið fram við alla af virðingu. Greinilega breyttist eitthvað og mér þykir það leitt,“ skrifaði Ellen til starfsmanna.

Hún sagði greinilegt að yfirmenn á vinnustaðnum misskildu það sem hún stæði fyrir og framkoma þeirra væri ekki í samræmi við hennar gildi. Það væri henni hjartans mál að öllum liði vel á vinnustaðnum.

Þá sagðist Ellen skilja það manna best hvernig það væri að upplifa óréttlæti. Hún hefði sjálf upplifað fordóma og næstum því misst allt þegar hún opinberaði að hún væri samkynhneigð á tíunda áratugnum.

„Að hugsa til þess að eitthvert ykkar upplifði það þykir mér hræðilegt.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×