Lífið

Líkami Magnúsar Vers í aðalhlutverki í myndbandi Action Bronson

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá Magnús Ver Magnússon, með andlit Action Bronson, taka við sigurverðlaununum eftir Sterkasta mann heims árið 1995.
Hér má sjá Magnús Ver Magnússon, með andlit Action Bronson, taka við sigurverðlaununum eftir Sterkasta mann heims árið 1995. skjáskot

Bandaríski rapparinn Action Bronson, sem m.a. kom fram á Secret Solstice í Laugardal árið 2016, bregður sér í hlutverk kraftajötunsins Magnúsar Vers Magnússonar í nýjasta myndbandinu sínu.

Myndbandið er við lagið Latin Grammys sem er það fyrsta sem Bronson sendir frá sér á þessu ári. Þar er aflraunakeppnin Sterkasti maður heims árið 1995 í fyrirrúmi, keppni sem Magnús Ver sigraði og varði þar með titil sinn frá árinu áður.

Það er því kannski ekki nema von að Bronson velji Magnús sem fyrirmynd sína í myndbandinu. Rapparinn nýtir sér tölvutæknina til að fella andlit sitt ofan á höfuð Magnúsar, kynnir sig til leiks sem Action Ver Magnusson og rappar á milli þess sem hann lyftir þungum hlutum.

Bronson hefur sjálfur verið duglegur að hreyfa sig að undanförnu. Hann hefur skafað af sér rúmlega 36 kíló á síðustu mánuðum og verið duglegur við að auglýsa það á samfélagsmiðlum.

Myndbandið við Latin Grammys er ekki aðeins virðingavottur við íþróttaafrek fortíðar heldur vísar Bronson í texta lagsins meðal annars í ökuþórinn Dale Earnhardt, sem lést við NASCAR-akstur árið 2001, og Derek Jeter sem var liðtækur hafnaboltakappi á sínum tíma.

Myndbandið við Latin Grammys má sjá hér að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.