Innlent

Strætó ekki skylt að hafa grímuskyldu

Sylvía Hall skrifar
Í minnisblaði sóttvarnalæknis stóð að grímuskyldan ætti við um almenningssamgöngur þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis stóð að grímuskyldan ætti við um almenningssamgöngur þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð. Vísir/Vilhelm

Grímuskylda sem kveðið er á um í minnisblaði sóttvarnalæknis í tengslum við almenningssamgöngur á ekki við um Strætó. Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í kvöldfréttum RÚV og bætti við að áherslan væri frekar á innanlandsflug og ferjur þar sem fólk væri í sama rými í lengri tíma.

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við fréttastofu að Strætó falli ekki undir reglurnar. Reglurnar um grímunotkun séu í smíðum og verði tilbúnar í fyrramálið.

Í tillögum sóttvarnalæknis, sem samþykktar voru af heilbrigðisráðherra og taka gildi í hádeginu á morgun segir:

„Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur.“

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir fyrirtækið hafa litið svo á að reglurnar ættu einnig við um farþegaflutninga í strætisvögnum.

„Við lásum þessi fyrirmæli eins og aðrir í þjóðfélaginu og þar stóð almenningssamgöngur, ferjur og flug. Við miðuðum okkar fyrirmæli við það og svo erum við að heyra eitthvað annað núna. Við þurfum bara að taka stöðuna á því á morgun,“ segir Jóhannes í samtali við Vísi.

„Það eru í sjálfu sér engar aðrar almenningssamgöngur en Strætó svo það er erfitt að taka því öðruvísi.“

Hann býst við því að stjórnendur Strætó taki stöðuna á morgun og ræði málin. Þeir hafi heyrt „allskonar útfærslur“ en þurfi að fá þetta á hreint. Nýtingin hafi aukist verulega hjá Strætó og farþegafjöldi sé um 30 þúsund manns á dag.

„Ég held það sé bara til að auka öryggið að hafa grímu,“ segir Jóhannes um málið.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum var lagt upp með að Strætó yrði undanþegin grímuskyldu þar sem um styttri ferðir væri að ræða. Þeim væri þó velkomið að hafa grímuskyldu ef þeir kjósa það.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×