Innlent

Svaraði ekki hvort Ólafur Helgi yrði færður til Eyja

Kjartan Kjartansson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Vísir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, vildi ekki staðfesta eða hafna því að hún hefði sent Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, formlegt bréf um að hann yrði fluttur til Vestmannaeyja, eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar í dag. Sagðist hún vonast til að vinnu ráðuneytis hennar vegna málefna lögreglunnar lyki á „nokkrum dögum“.

Styr hefur staðið um störf Ólafs Helga á Suðunesjum en hópur yfirmanna þar er sagður vilja losna við hann. Á móti hefur hópurinn verið sakaður um að grafa undan lögreglustjóranum.

Óstaðfestar fréttir hafa verið um að Áslaug Arna dómsmálaráðherra hafi tilkynnt Ólafi Helga að hann yrði fluttur til Vestmannaeyja. Hún hefur aftur á móti ekki viljað tjá sig um málið undanfarna daga. Engin breyting var á því þegar fréttamaður Stöðvar 2 spurði Áslaugu Örnu hvort að fréttirnar af flutningnum væru réttar eftir blaðamannfund ríkisstjórnarinnar um hert sóttvarnaaðgerðir í dag.

„Það þarf fyrst og fremst að tryggja að lögreglan í öllum embættum starfi og um það sé friður. Ég tjái mig að öðru leyti ekki um einstaka starfsmannamál,“ svaraði Áslaug Arna.

Sagði hún mál lögreglunnar á Suðurnesjum í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu og að það tæki einhvern tíma þar sem um væri að ræða viðkvæmt starfsmannamálefni. Vinnslan tæki vonandi „nokkra daga“.

Ólafur Helgi hefur sjálfur ekki viljað tjá sig um hvort hann hafi verið beðinn um að flytja sig um set.


Tengdar fréttir

Starfsmannalög heimila flutning embættismanna milli embætta

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er kveðið á um að ráðherra geti flutt embættismann á milli embætta sem undir hann heyra. Það verði þó að gerast að ósk eða með samþykki viðkomandi embættismanns.

Ráðherra sagður hafa sagt Ólafi Helga að fara til Eyja

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, er sögð hafa tilkynnt Ólafi Helga Kjartanssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, um flutning hans til Vestmannaeyja. Styr hefur staðið um störf Ólafs Helga hjá lögreglunni á Suðurnesjum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×