Innlent

Co­vid-tengdir sjúkra­flutningar hvorki á­vísun á smit né inn­lögn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Enginn liggur inni á Landspítalanum vegna Covid-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins greindi frá því í morgun að sjúkraflutningamenn hefðu sinnt þremur „Covid-19 flutningum“ síðasta sólarhringinn en yfirlæknir smitsjúkdómalækninga leggur áherslu á að slíkt sé hvorki ávísun á staðfest smit né innlögn á sjúkrahús.

Virk kórónuveirusmit á landinu sem stendur eru 24 og hafa ekki verið fleiri síðan í byrjun maí. Áhyggjur eru uppi um að faraldurinn sé að sækja í sig veðrið að nýju. Sóttvarnayfirvöld og almannavarnir hafa fundað í morgun vegna þessa og er sterklega gert ráð fyrir að hertar aðgerðir vegna veirunnar verði kynntar í dag.

„Það er aukin meðvitund um það sem er að gerast. Við hjá spítalanum erum mjög á tánum gagnvart þessum fregnum, eins og slökkviliðið og aðrir viðbragðsaðilar. Þegar fólk er með óútskýrð öndunarfæraeinkenni eða með einhver einkenni sem viðbragðsaðili eða læknir telur að gætu hugsanlega verið Covid, þá er gripið til þessa. Það er, að fólk er flutt með sérstökum viðbúnaði og sérstök aðgæsla höfð,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum í samtali við Vísi.

Eitthvað af fólkinu sem flutt var á spítalann hafi þannig verið með veikindi sem krefjast innlagnar. „En það liggur ekki fyrir hvort þetta eru veikindi af völdum Covid eða annarra orsaka,“ segir Már.

Þá leggur hann áherslu á að þegar einhver verði lagður inn á Landspítalann vegna Covid-sýkingar verði greint frá því.

„Þannig að svarið við spurningunni er nei, enginn hefur verið lagður inn. Eins og stendur inni á spítalanum erum við ekki með neinn inniliggjandi og eigum ekki von á neinum þannig lagað. En við erum með jákvætt fólk [fyrir kórónuveirunni] í eftirliti á Covid-göngudeildinni, sem er fyrst og fremst símaeftirlit. Svo við erum núna að taka afstöðu til þess hvort við þurfum að breyta viðbragðinu eitthvað,“ segir Már.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×